Punglykt? Eða hin þungu kynjagleraugu

Ég hef verið að velta fyrir mér einu litlu undrunarefni. Já. Það vill svo til að ég er enn tímaruglaður og er kominn á fætur á undan öllum hér í húsinu þar sem ég get ekki sofið. Þess vegna læðist ég niður í eldhús í skjóli myrkurs, heilsa upp á köttinn minn sem tekur mér fagnandi, helli mér upp á kaffi og byrja svo að leysa verkefni dagsins. Í morgun, eða nótt, því klukkan var ekki orðin fimm, sat ég bara og velti vöngum, aðhafðist ekkert, bara sat og velti vöngum yfir mínu litla undrunarefni. Þannig er mál með vexti að ég hef tekið að mér verkefni sem kalla mætti langtímaverkefni. Hluti af því verkefni er að hafa samband við tiltekinn hóp fólks sem ég þarf að biðja um að leysa smá verkefni innan verkefnisins. Að leysa þennan hluta ætti ekki að taka meira en tvær til þrjár klukkustundir fyrir þá sem fá beiðnina.

Undanfarnar tvær vikur hef ég sem sagt sett mig í samband við fjórtán einstaklinga innan sömu stéttar, sjö konur og sjö karla. Ég geng skipulega til verks, ég hef samið bréf þar sem ég lýsi verkefninu, segi frá umfangi þess og í hvaða tilefni, gef dæmi og segi hvenær verkefnið skal vera leyst. Ég skrifa til skiptis til karls og til konu. En það sem er farið að vekja undrun hjá mér, og ég veit ekki hvaða lærdóm ég á af þessu að draga, er að af einstaklingunum fjórtán hafa fimm svarað fyrirspurn minni. Allt karlar, og þeir hafa tekið verkefninu fagnandi og tveir hafa þegar sent mér úrlausnir. Engin kona hefur svarað.

Aftur og aftur hef ég lesið bréfið sem ég sendi til þessara einstaklinga til að athuga hvort það sé punglykt af því. Höfðar bréfið frekar til karla en kvenna? Eða hæfir verkefnið körlum frekar en konum? Ég get hvorki séð að bréfið né verkefnið hafi dulda kynjaskekkju (en ég er heldur ekki vanur að bera kynjagleraugu ótilneyddur), en ég verð víst að prófa mig áfram og lokka konur til að vera með því annars fæ ég skömm í hattinn þegar verkefnið er birt að það séu einungis karlar með.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.