„Sjáið dollaraglottið á þessari mynd (myndin er hér að neðan). Þessi erkisauður er víst að stela bókum eftir íslenska höfunda í stórum stíl. Það er allt vitlaust í RSÍ út af þessu. Svo glottir þetta bara framan í myndavélina. Ísland í dag“
Mér var bent á þennan texta í dag. Hann birtist á facebook og er höfundur orðanna Þórarinn Leifsson sem er rithöfundur. Því miður er of oft sem maður sér svona dónalegt og andstyggilegt tal út í persónur sem maður er ekki sammála. Ég vona að það sé ekki lýsing á Íslandi í dag svo ég noti sama útslitna nöldurfrasa og rithöfundurinn.

Ástæða bræði Þórarins mun vera opnun Storytel á Íslandi en þar opnast leið fyrir áskrift á hljóðbókum á sama hátt og sú áskriftaþjónusta sem Netflix býður á kvikmyndum. Storytel er starfandi í 10 löndum og þetta fólk á bak við Storytel veit hvað það er að gera. Það stelur ekki bókum. Þær bækur sem þeir veita aðgang að, berast þeim frá rétthafa hljóðbókaútgáfu og rétthafinn (hver sem hann er, forlagið eða hljóðbókaútgáfa, streymisveitan sjálf) gefur Storytel leyfi til að streyma bókunum gegn greiðslu. Hluti af þeirri greiðslu sem rétthafi fær frá Storytel rennur til höfundar (ansi rýr). Allt er þetta samningsbundið.
„Við erum búin að tryggja okkur réttinn á meira og minna öllum hljóðbókum sem til eru á Íslandi. Síðan höfum við setið við undanfarna mánuði og framleitt tugi bóka sem aldrei hafa komið út. Síðan, þegar fram líður, munum við framleiða 250-300 bækur á ári,“ segir framkvæmdastjórinn á Íslandi.
Nú heyrist hingað til Danmerkur að það sé ólga meðal rithöfunda vegna þess að þeir eru ósáttir við að bækurnar séu boðnar áskrifendum Storytel. Höfundar hafa sameinastu um að skrifa til forlaga sinna bréf þar sem fram kemur að höfundar óska eftir því að verk þeirra verði tekin út af vef Storytel á Íslandi, enda sé réttur til áskriftastreymis ekki innifalinn í útgáfusamningi FÍBÚT og RSÍ. Ef ég þekki Storytel rétt hafa þeir allt sitt á þurru. Það er spurning hvort það sama gildi hjá þeim sem sendu hljóðfælana til Storytel. Það er forvitnilegt að sjá hvernig samningur RSÍ og FÍBÚT verður túlkaður því streymi á bókum er nýtt.
Hingað til hefur hljóðbókamarkaðurinn sem víða er stórvaxandi verið nánast óstarfhæfur á Íslandi og með Storytel opnast möguleiki að koma lífi í útgáfu hljóðbóka. Vandinn er bara sá með Storytel – og aðra sem selja innihald eða selja afþreyingar- eða listrænt efni – að þeim hefur tekist að þvinga verðið sem rétthafinn fær og sjálfur listamaðurinn svo langt niður að það er ekki einu sinni upp í nös á ketti. Samhliða þessu gerist það að fótunum er kippt undan útgáfu innbundinna bóka. Áhugafólk um bækur sem gerast áskrifendur að slíku streymi venjast því að fá hlaðborð af bókum sem þeir geta hámað í sig í ótakmörkuðu mæli. Þessir neytendur hugsa sig því tvisvar um áður en þeir hlaupa út í bókabúð og kaupa bók. Bókin liggur á streymisveitu og kostar ekkert aukalega að hlusta á hana. Því þá að nota peninga til að kaupa bók? Þetta er þróunin í öllum þeim tíu löndum sem Storytel er.
Koma Storytel á því eftir að verða bókaútgáfu í landinu mikið högg takist ekki að halda uppi því verði sem Storytel greiðir fyrir hverja hlustun þannig að það vegi upp á móti því sölutapi sem fylgir streymisveitu.
Ég hef átt í viðskiptum við Storytel í mörg ár hér í Danmörku og í Svíþjóð og veit vel hvað þeir eru færir í að herða á þumalskrúfunni. Um leið og maður hefur rétt fram höndina kemur í ljós silkihanskaklædd járnkrumla og úr henni er erfitt að losna óskaðaður.