Það er eitthvað furðulegt að mér; ég get ekki sofið. Ég sofna eins og engill en vakna svo um miðja nótt, mér finnst ég vera úthvíldur og get ekki sofnað aftur. Ég fer á fætur um miðja nótt, læðist niður og byrja að leysa mín litlu, fyndnu verkefni. Fyrir utan er myrkrið aldeilis dimmt. En ég set bara tónlist á fóninn og spila á lágum hljóðstyrk, fæ mér kaffibolla og svo set ég daginn í gang. Í nótt var ég kominn á ról klukkan hálf fjögur. Þetta er góður tími, tíminn við fæðingu morgunsins.
Í gær heimsótti ég kvikmyndahús með Sus; keyptum miða í litla sveitabíóinu hérna rétt hjá okkur. (Bara korters ganga). Það tekur ekki marga í sæti og sennilega er ekki oft þörf á því. Bíógestirnir í gærkvöldi voru bara um það bil fimmtán og við sáum, úr rauðu plussklæddu sætunum, leikarann Daniel Day-Lewis brillera sem kjólahönnuður í kvikmyndinni… já hvað heitir nú, kvikmyndin … sennilega eitthvað með hinn ósýnilega þráð. Jú, The Phantom Thread, heitir hún. En það má segja að söguþráðurinn sé svolítið ósýnilegur eða að minnsta kosti þunnur. Ég naut þess þó að horfa á kvikmyndina, borða popp og drekka Pepsi Max því þetta var falleg kvikmynd og leikararnir voru góðir.
Ég veit af gömlum félaga mínum í Mílanó, hann lenti þar í gær, og hann spurði mig hvort ég vildi ekki hoppa niður til Ítalíu á föstudaginn og hitta hann og gamlan félaga minn úr forlagsbransanum Pietro. Það hefði verið kjörið. Ég er frjáls maður og get gert það sem mér sýnist. En það get ég samt ekki, því miður, þótt það hefði verið frábærlega gaman. Mílanó er stórfín borg og meira en það. Og félagi minn er ekki sérstaklega leiðinlegur heldur. En ég er á leið til Svíþjóðar í tennisbúðir og verð þar laugardag og sunnudag. Ekki Mílanó þennan föstudaginn.
ps. tók eftir því á leið til vinnu að vetrarblómin eru farin að kíkja upp úr jörðinni; fyrsta merki um að vor, jeiii. Ich liebe Frühling. (Þetta er þýska)