Nætursnúningur á hjóli atvinnulífsins

Það getur stundum verið hálfundarlegt að mæta á tóma skrifstofuna hérna snemma morguns. Byggingin er gömul en frábærlega flott; það mætir manni sál um leið og maður stígur inn. Ég opna dyrnar og geng inn í gamla biðsalinn þar sem lestarfarþegarnir biðu eftir lestinni í gamla daga og á móti mér tekur dunandi músik frá skrifstofunni minni. Alltaf dunandi músik. Mér er nefnilega umhugað um að hjól efnahagslífsins snúist, þótt ég sofi, sérstaklega ef það er til hagsbóta fyrir listamenn sem mér líkar við. Ég hef það því fyrir vana að velja einhverja fallega tónlist á Spotify áður en ég fer heim á kvöldin og setja hana á repeat svo tónlistin hljómi alla nóttina. Ég hugsa að það sé gott fyrir sálina í húsinu, gott að hjól efnahagslífsins stöðvist ekki og þar að auki tikki inn Spotify-peningar hjá listamanninum.

En sólin skín hér. Og ég mætti seint í dag, (tennis í morgun) en músikin hljómaði enn þegar ég settist í skrifstofustólinn minn. Í þetta sinn var það Billie “Prince” Billy. Hann er góður, sérstaklega Master & Everyone platan. Göngutúrinn að heiman í morgun var notalegur því sólin skein á mig og himinninn var heiður. Mér fannst ég þreyttur og fannst eins og ég varla mjakaðist úr sporunum. Þetta var því hæg ganga í dag.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.