Sjaldgæfir vinir – fyndin hugdetta.

Mér barst bréf í gær og það gleður mig alltaf að fá tilskrif. Satt að segja hafði ég einmitt hugsaði með mér í gær, þegar ég sat á mínu priki á skrifstofunni – áður en mér barst þetta bréf – að stundum bærðist innra með mér snertur af einmanakennd. Mér finnst stundum svo langt í mitt fólk á Íslandi, ég get ekki bara stokkið af stað og hitt þá sem mig langar að hitta. Og það eru margir sem ég er hnýttur sterkum böndum við á Íslandi. Hér í Danmörku á ég svo sem engan alvöru vin. Hér á ég marga ágæta félaga sem heimsækja mig og klappa mér á bakið af vinsemd og væntumþykju. En það sem ég kalla nána vini – þeir eru sjaldgæfir – þeir eru ekki hér í Danmörku.

En mér barst sem sagt bréf frá manni sem sagðist lesa þessa síðu hér, kaktusinn. Maðurinn er einn af góðum félögum mínum og hefur verið það í mörg ár svo bréf hans gladdi mig mikið. Hann sagði mér frá mörgu skemmtilegu af högum sínum, sínu bauki  og sínu streði, og nefndi það í leiðinni að þetta langa bréf væri endurgjald fyrir endalausar fréttir af  lífi mínu sem honum bærust í gegnum dagbókarsíðuna mína.

ps. Hann spurði mig meðal annars að því hvernig bjórbruggið gangi. Honum fannst eins og ég hefði aldrei sagt frá því hvernig bjórinn væri á bragðið. Ég hef lýst því nokkrum sinnum að við erum þrír karlhólkar sem erum að brugga bjór og ég get upplýst að bjórbruggið hefur heppnast framar öllum vonum. Nú er undirbúin bjór-session þar sem ætlunin er að brugga bjór úr korni, mangó og sítrusávöxtum (ég veit ekki hvað Sölvi minn segir um þessa áætlun).

pps. Sus spurði mig í morgun hvort ég vildi ekki fara í gráu buxurnar mínar, ég hefði næstum ekkert notað þær. Ég vissi eiginlega ekki um hvaða buxur hún var að tala því föt fylla svo ógnarlítið af daglegri hugsunargetu minni. En ég fann gráar buxur og fór í þær. Og þegar ég leit niður eftir lærunum á mér (stæltir fótboltavöðvar, yo!) fannst mér allt í einu að ég væri eins klæddur og vinur minn Pep Guardiola. Það þótti mér fyndin hugdetta.

 

 

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.