Náin samskipti við ókunnuga

Það er komið kvöld og ég er rétt sestur niður til að skrifa Kaktus-dagbók. Það er ró yfir litla bænum mínum, myrkrið grúfir yfir og í gluggum húsanna hérna í kring loga ljós. Einhvern veginn hefur maður það á tilfinningunni á nágrannar mínir séu að ganga til náða. Ef ég horfi út um gluggann, yfir í næstu hús finnst mér ég sjá bregða fyrir fólki með nátthúfur á höfði á leið í bælið.

En ég er nýkominn heim frá Svíðþjóð, frá tennismekkanu Båstad þar sem Björn Borg hefur varið mörgum stundum við tennisiðkun. Nú 25 árum síðar hef ég varið átta klukkustundum á tennisvellinum síðustu tvo daga. Þetta eru ánægjulegar pyntingar og nú er ég að nokkuð þreyttur. Það er bæði erfitt að þeytast um tennisvöllinn svona lengi og í miklum ákafa, en það er líka strembið, að minnsta kosti fyrir mig, að vera í nánu samneyti við 10 ókunnar manneskjur í nærri tvo sólarhringa. Við vorum sem sagt 10 skráð í þetta námskeið, allt Danir nema ég, allt fyrirtaks fólk, glaðlynt og fjörugt.

Við vorum tvo og hálfan tíma í senn á tennisvellinum, tvisvar sinnum á laugardaginn og einu sinni í dag. Í gærkvöldi var svo gleðskapur þar tennisfólkið sem skemmti sér konunglega. Við gistum í aftar frumstæðum skúrum, tveir/tvö í hverju herbegi. Og minn rekkjunautur var sérlega kurteis og brosmildur maður frá Snekkersten sem er næst bær við Espergærde. Hann var stórskemmtilegur og sagði óborganlegar sögur af samskiptum sínum við Íslendinga fyrir kreppu. Hann sá meðal annars um að setja upp upplýstu ljósaauglýsingarnar við strætóskýlin í Reykjavík. Af einhverjum ástæðum taldi hann sig þurfa að múta ÍSTAKI (eða ÍSTAP eins og hann kallaði fyrirtækið) til að steypa undirstöður fyrir þessi skilti. Eitthvað held ég að hann hafi misskilið eitthvað því að hann hélt að ÍSTAK hefði verið eina fyrirtækið sem var fært um að steypa fyrir skiltunum.

Sem sagt: kominn til baka, ansi lúinn en orðinn miklu betri tennismaður. Yo!

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.