Tími til að sprella.

„Bókaútgáfan í landinu er komin að ákveðnum endimörkum,“ sagði Heiðar Ingi Svansson, nýkjörinn formaður Félags íslenskra bókaútgefenda, á Morgunvaktinni og vísaði til minni bóksölu og dvínandi lesturs. Fram kom hjá honum að bókaútgáfa væri mjög háð velvilja stjórnvalda. Nú er þess beðið að birt verði skýrsla starfshóps sem fjallaði um stöðu bókarinnar.

Þetta las ég í gær á vef Ríkisútvarpsins. Þótt þessi ummæli nýs formanns íslenskra bókaútgefenda komi mér kannski ekki sérlega á óvart gat ég ekki á mér setið. Ég gaf frá mér lága uppgjafarstunu. Er þetta hljóðið sem kemur út úr hinum nýja formanni? Væl… Sífur. Það er enginn sem nennir að hlusta á slíkan grát. Því lofa ég. Það eina sem maður uppsker með þessu táratali er mesta lagi vorkunn, eða meðaumkun ef það er skárra. Hvað gerir bókaútgefandi með meðaumkun? Grætur meira? Það er fátt jafnósjarmerandi og tárvotur forleggjari. Ef bókaútgefendur halda að þetta sé leiðin til að stjórnmálamenn opni hjarta sitt og peningabuddu og helli gulli í betlandi hönd kveinandi útgefanda, þá er það stórkostlegur misskilningur.

Halda menn að þetta hryggðarvein sé leiðin til að gera bóklestur aftur sexy?  Nei, það er ekki tími til að gráta, kæri formaður. Upp með brækurnar, það er kominn tími til að sprella.

ps. Nú er líka tími bókamarkaðar. Hægt er að kaupa fínustu bækur á markaðinum fyrir 500 kall, sama verð og hálfur bjór á bar. Bækur kosta minna en skítur á priki eftir jól, jeiiii.

 

 

 

 

dagbók

Skildu eftir svar