Guðmundur Andri beitir þefskyninu

Enska stórblaðið The Guardian er bæði vandað og skemmtilegt dagblað. Ég les það stundum. Til dæmis í gær. Ég veit ekki hvað fékk mig til að fara að lesa útlent dagblað þegar ég hafði satt að segja nóg annað að gera og var of seinn með ýmislegt. En þetta er dæmigert fikt nútímamannsins sem á erfitt með að halda sér rólegum á einum stað. Einbeita sér að einu knýjandi verkefni.

Nú kemur aukamálsgrein því ég var ekki búinn að segja frá því sem ég las í The Guardian, en ég skoðaði nefnilega annað útlent dagblað í gær, The New York Times. Það er líka stórblað og þar rak ég augun í frásögn af rannsókn sem vísindamenn gerðu nýlega á símahegðun fólks. Dagarnir eru öðruvísi nú en fyrir tíu árum þegar Apple kynnti iPhone. Það sést best á því að samkvæmt þessari rannsókn sem ég las um í The New York Times dagblaðinu (nú er ég farinn að skrifa eins og Bragi Ólafsson) að fólk snertir (skrifar, þrýstir, bankar, ýtir til hliðar) símann sinn í ákveðnum tilgangi að meðaltali 2167 sinnum á dag. Búmm.

En aftur að greininni í The  Guardian. Þar er skrifað að íslenska tungan sé að deyja. Dálítið merkilegt að útlendingar hafi áhyggjur af þessu þegar flestir Íslendingar eru alveg rólegir yfir málinu (orðaleikur, yo!) Í greininni kemur fram að íslensk orð og orðatiltæki séu smám saman að verða gleymskunni að bráð og í stað þeirra komi enskir og amerískir frasar. Það eru fyrst og fremst yngri kynslóð Íslendinga sem er farin að missa tökin á tugunni, segir The Guardian.

Og nú er Guðmudur Andri Thorsson orðinn þingmaður og hann sagði víst á Alþingi eitthvað í þá átt að stjórnvöld verða að líta á það sem forgangsmál að stórefla bókaútgáfu, ekki síst barnabókaútgáfu. Kannski hefur Guðmundur Andri rétt fyrir sér þegar hann segir að fylla eigi bókasöfnin með ilmandi barnabókum, það gæti verð framlag stjórnvalda. En ég held að það sé nú fyrst og fremst þegnskylda bókaútgefenda að finna leiðir til að rækta efnilega og áhugasama barnabókahöfunda sem skrifa áhugaverðar bækur fyrir börn. Það er gersamlega grunnurinn fyrir framhaldslífi bókaútgáfu og framhaldslífi íslenskrar tungu. En því miður heyri ég hjá ungum höfundum sem skrifa fyrir börn að bókaforlögin láti þá sitja á hakanum og sýni verkum þeirra harla lítinn áhuga. Helst þurfi höfundurinn að vera frægur fyrir eitthvað annað (leikari, fótboltamaður, rappari, módel, söngvari, hljómsveitarmaður) en að skrifa bækur til að útgáfan sýni þeim áhuga.

ps. Ég þurfti að hafa samband við ungan íslenskan rithöfund á dögunum. Ég skrifaði tölvupóst þar sem ég reyndi að vanda mál mitt svo höfundurinn skildi hvert erindi mitt var. Ég fékk gott svar um hæl frá höfundinum unga. En í svarinu voru svo mörg ensk orð að ég þurfti nánast að leita á náðir ensk-íslenskrar orðabókar til að skilja hvað ungi höfundurinn vildi segja mér. It’s true, yo!

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.