Langur skuggi og selirnir

Það er þvílíkt Síberíufrost hér í bænum að það brakar í loftinu. Frostbrak.  Bæjarbúar hætta sér nánast ekki út úr húsi. Ég held mínu striki arka í gegnum fimbulkuldann upp á skrifstofu á hverjum morgni. Flestir keyra í bílunum sínum. Mestar áhyggjur hef ég af ólífutrénu mínu sem stendur í stórum blómapotti á veröndinni hjá mér. Í gær færði ég það upp að húsinu og klæddi það í peysur. Ég opnaði meira að segja næsta glugga til að veita smá yl innan úr húsinu á tréð.

Ég setti mig í frekar vonda stöðu í gær þar sem ég er á eftir áætlun með sum af verkefnum mínum (tennishelgin hefur tekið sinn toll). Til að bjarga mér fyrir horn vann ég til klukkan hálf þrjú í nótt. Allt er þetta í þágu betra bókmenntalífs á Íslandi. Ha! Maður getur ekki bara vælt, maður verður að berjast, hlaupa í vörnina og vera  með í sókninni.

Sunnar í álfunni, einhvers staðar í Grikklandi, situr yfirlesari minn í tjaldi og passar asna og hænur í helliregni. Ég ætti ekki að vera að kvarta undan kulda, ég er yfirleitt inni í húsi.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.