Að tala um kærleikann

Ég fékk kveðju í gær frá rithöfundinum Bergsveini Birgissyni og ég gladdist mjög og hugsaði strax að gaman hefði verið að hitta hann. Einhvern veginn hef ég það á tilfinningunni að Bergsveinn eigi eftir verða stór höfundur á heimsvísu. Hann er einn af þeim höfundum sem hafa svo ekta rödd, laus við tilgerð sem mér finnst ég of oft rekast á.  Ég fann að ég varð bæði glaður og dálítið upp með mér þegar ég hugsaði um  að ég hafði tekið þátt í að  gefa út fyrstu bókina hans (og líka næstu bækur). Samt var það ekki ég sem uppgötvaði hann, það var minn góði samstarfsmaður Jón Karl. Það, eins og svo margt annað, á ég honum að þakka.

Ég hitti konu sem ég kannast við hérna fyrir utan skrifstofuna mína í gær. Hún er að læra guðfræði í háskólanum. Ég veit ekki hvort hún var að bíða eftir mér eða hvort hún bara stóð þarna fyrir tilviljun. Það var ekki hún sem bar mér kveðjuna frá Bergsveini, en hún vildi tala við mig um kærleikann. Það er kalt hérna í Danmörku svo hún var bæði klædd í húfu og trefil. Hún vildi segja mér frá kærleikanum og það gerði hún. Henni var nokkuð niðri fyrir, var samt yfirveguð og talaði rólega,  og ég sá í augum hennar að erindi hennar var henni mikilvægt. Þegar hún lagði áherslu á orð sín tók hún alltaf með annarri hönd sinni í upphandlegg minn, svo ég smokraði ekki burt frá henni á meðan hún sagði frá. Ég kunn að meta boðskapinn og hef hugsað um orð hennar síðan.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.