Spurningin: hvers vegna?

Ég vaknaði í morgun við hugsunina að í dag hefði pabbi minn átt afmæli. 3. mars. Ég gaf honum alltaf vindil í afmælisgjöf á meðan hann reykti. Það var ekki erfitt að finna afmælisgjöf.

Í gær kom flóðbylgja af bréfum til mín. Kalman sendi mér með landpóstinum bunka af bókum eftir Þorstein frá Hamri, sem var mjög fallega gert af honum. Svo kom líka þessi holskefla af tölvupósti, allt í einu og skyndilega. Það var eins og allir vildu tala við mig, allir hefðu áhyggjur af geðheilsu minni eða eitthvað. Kannski hef ég sagt eitthvað eða gert sem fékk fólk til að skrifa mér og klappa mér á bakið. Ég verð bara glaður.

Ég var að lesa Marilynne Robinson. Hún er ekki auðveld aflestrar en rosalega skrifar hún af miklum hugarkrafti. Ég vildi að ég hefði svona orkustöð í hausnum eins og hún. Hún er upptekin af Guði og okkar takmörkuðu heimsmynd. Hún segir: Biðji maður köttinn að lýsa heimsmynd sinni verður maður hissa á hvað skynjun hans og skilningur er takmarkaður. Þetta er þó heimsmynd kattarins, svona sér hann heiminn og hann veit ekki betur en að myndin sé fullkomin. Lýsi ég heimsmynd minni; hvað ég skynja og hvernig ég skil lögmál veraldarinnar, tel ég myndina fullkomna. Hlusti einhver enn æðri vera á lýsingu okkar á heiminn hugsar hún örugglega hvað við skiljum fátt. Það er auðvitað margt sem við skiljum ekki og höfum ekki getu til að skilja.

Hið huglæga gefur lífskraftinn og þar er uppspretta lífsgleðinnar. Vísindin geta svarað mögum spurningum en ekki enn spurningunni: Hvers vegna?

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.