Að liggja á baðherbergisgólfi

Stundum þegar ég les ljóð skálda sem ég þekki ekki persónulega velti ég því fyrir mér hvort skáldið sem ég les sé óvenju gáfað. Er ekki óvenju gáfulegt að segja í berjasælu sumars og draumdjúpum vetri? Ég hef svo sem oft dáðst að rithöfundum eftir að hafa lesið bækur þeirra en við nánari kynni verð ég stundum fyrir nokkrum vonbrigðum með andleysið sem mætir mér í holdi. Ef ég held upp á listamann forðast ég að hitta hann (listamanninn). Það getur verið góð regla en ég hætti á að missa af miklu.

Ég var annars á leið inn til Kaupmannahafnar í dag. Það hafði ég skipulagt fyrir nokkru. Ég hafði mælt mér mót við ágætan kvikmyndagerðarmann klukkan 9 í morgun. En í nótt fékk ég SMS frá manninum. Það vildi svo til að ég lá vakandi og horfði upp í loftið þegar síminn minn á náttborðinu fór skyndilega að lýsa í svefnherbergismyrkrinu og ég sá SMS-ið birtast: „Hó Snæi. Ég hef fengið einhverja vírussýkingu. Getum við frestað fundinum þangað til í næstu viku. Ég hef legið  á baðherbergisgólfinu í næstum alla nótt. Ég ætla að reyna að sofa.“ Hann er dramakóngur hann vinur minn, kvikmyndagerðarmaðurinn. (Ég heyrði í honum áðan og fékk staðfest að hann væri kominn upp í rúm, svo ég er rólegur.)

Ég hafði annars hlakkað til fundar okkar þar sem við erum að vinna saman að skemmtilegu verkefni í félagi við annan ungan mann. Í nótt, áður en ég fékk SMS-ið, hafði ég séð sjálfan mig fyrir mér í lestarklefanum á leið til Kaupmannahafnar að skrifa dagbók dagsins. Að taka lest inn til Kaupmannahafnar snemma morguns, eins og maður sem vinnur alvöru vinnu, hafði verið tilhlökkunarefni. En það varð sem sagt ekkert af því og þess vegna sit ég hér á skrifstofunni minni og ætla að halda áfram með þýðingarverkefni dagsins. Nýbyrjaður á nýrri bók og það er miklu snúnari texti en texti síðustu þýðingar.

Annars á ég símafund með verkfræðingum í dag, íslenskum verkfræðingum sem vilja ræða burðarþol, sperruþykkt og vindfleti. Hó, þarna er ég á heimavelli.

dagbók

Skildu eftir svar