Ungstirnið frá Íslandi keypti hvíta vespu.

Ég las að Ole Gunnar Solskær, norski fótboltamaðurinn sem einu sinni spilaði með Manchester United, hafi þótt líf sitt sem fótboltamaður leiðinlegt. Ég get vel ímyndað mér að líf knattspyrnumanns hjá Manchester United sé hundleiðinlegt. Ég hefði aldrei viljað spila með þeim. Ef ég hefði gerst atvinnumaður í fótbolta, sem var nú bara spurning um val þegar ég var yngri, hefði ég spilað fyrir AC Milan. En ég valdi að gerast bókaútgefandi eins og margir ungir drengir.  Kannski voru það mistök ég hefði auðvitað átt að verða atvinnumaður í ítölskum fótbolta.

Já, þá hefði ég spilað fyrir AC Milan við hlið Paolo Maldini í vörninni, við erum næstum jafngamlir, þannig. Líf mitt við hlið Maldini, í liði AC Milan, hefði ekki verið leiðinlegt. Ég hefði, um leið og ég hefði klárað fyrstu æfinguna með liðinu (ég hefði verið keyptur frá knattspyrnufélaginu Fram snemma vors), fundið næstu Vespu-búð og valið mér hvíta Vespu, borgað cash (þannig gera fótboltamenn) svo hefði ég keyrt á vespunni um Milan með kærustuna mína á sætinu fyrir aftan mig. Ljósmyndarar hefðu setið um okkar og fyrirsagnir íþróttablaðanna næsta dag hefðu verið:  La nuova giovane footbalstar islandese comprò una vespa bianca.  (Ungstirnið frá Íslandi keypti hvíta vespu).

Við, ég og mín góða kærasta, hefðum brunað á vespunni upp í fjöllin fyrir ofan borgina. Borðað hádegismat á veitingahúsi með rauðköflóttum dúki og útsýni yfir eitthvað fallegt. Og sólin hefði alltaf verið yfir okkur. Það er vor, þú sem ert á himnum.

Við Maldini hefðum orðið rosa góðir vinir og við kærastan hefðum lært ítölsku á þremur dögum af því að við hefðum verið svo ung og hress.  Maldini hefði strax farið að kalla mig Orso Bianco, eða bara Orso, því hann hefði ekki getað sagt Snæi. Ég hefði sagt honum frá bókum sem ég hefði verið að lesa og hann hefði orðið gífurlega áhugasamur um bókmenntir, byrjað að lesa Calvino og svona.

PaoloMaldini
Þetta er vinur minn Maldini í kveðjuleik mínum með AC Milan

Maldini hefði svo lagt það í vana sinn að koma í síðdegisheimsókn eftir æfingar og við hefðum farið saman út á tennisvöll að spila smá tennis. Eftir tennisæfinguna hefði Maldini spurt: „Orso, eigum við að fara á barinn og kíkja á gellurnar?“  „Si, certo,“ hefði ég svarað. Og við hefðum rölt saman á uppáhaldsbarinn okkar og fengið okkur espresso og kíkt á gellurnar. 

Auðvitað hefði Nesta (hann var hinn raunverulegi varnarmaður í liði Milan á þessum árum) orðið smáfúll út í mig því hann hefði alltaf þurft að sitja á varamannabekknum en við Maldini hefðum alltaf verið góðir við hann. Stundum hefðum við boðið honum með okkur á barinn eða talað við hann um Calvino: „Nesta… mio amico.. Calvino è un buon autore.“

Ole Solskær hefði ekki átt að velja plebbalið eins og Manchester United. það hefði ég getað sagt honum fyrir löngu. Þar eru tómir dúkar. Fatta ekki vespur, fatta ekki Calvino … fatta ekki neitt.

dagbók

Skildu eftir svar