Baráttudagurinn

Sit í flugvél. Það er furðulega oft sem ég skipti um sæti, einn daginn á skrifstofu, annan dag á Søbækvej, næsta dag í flugvél sem er snjóuð inni í Kastrup. Ég er á leið á skíði og þess vegna fagna ég snjókomu, vona að það sé nægur snjór í Noregi þar sem ég ætla að renna mér fram á sunnudag. Afmælisbarnið Sus situr við hlið mér, hún ætlar líka að renna sér á skíðum og Davíð situr hérna líka á leið á skíði. Númi kemur í sérflugi. Hann er í skólanum í dag og flýgur seinnipartinn, í fyrsta skipti sem hann flýgur einn á milla landa. Hann hlakkar til þess, enda snýst margt um að vera fullorðinn um þessar mundir. Mér finnst gaman að sjá litla strákinn minn allt í einu verða hálffullorðinn menntaskólanema með stæla út í „hirsilíf” okkar foreldranna. Hollur matur, hreyfing, lestur, listir, takmarkað on-line-líf. Þetta er hið mesta hirsi!

Í dag er baráttudagur kvenna, 8 mars. Mér finnst alltaf svo gaman að baráttudögum, það hleypir svo miklu lífi í málsstaðinn, baráttuanda í brjóst. 1. maí til dæmis, toppdagur, þar sem allir eru svo æstir og brjálaðir, eyða nóttunum á undan að mála borða, sauma fána og berja sér á brjóst.

Í gær setti ég nýtt brugg í gang. Í fyrsta skipti notaði ég appelsínur og sítrónur með bruggkorninu. Það verður gaman að prófa. Annars eru síðustu tvö brugg  (IPA og Amber Ale) nokkuð vel heppnuð og fólk kemur langar leiðir til að ná sér í bjór, Ég hef gefið mestan hluta framleiðslunnar öllum til nokkurrar gleði, kallar mig bruggmeistara, yo!, ég sem hef ekkert vit á þessu.

Ég má ekki gleyma að minnast á hvaða bók ég hef með mér til Noregs. Það er mikilvægt mál, Vansæmd eftir Coetzee er með. Ég reyni aftur. Bókin kom með til Dubai en ég fann hana aldrei í töskunni eins og ég hafði hlakkað til að lesa hana aftur. Ég var búinn að gleyma svo mörgu úr þessari bók að mig dreymdi um að lesa hana aftur.

ps. annars minnir Osló mig alltaf á Coetzee. Vinkona mín forleggjari í Noregi, og forleggjari Coetzee, sagði mér einu sinni frá heimsókn Nóbelsskáldsins til Osló. Vinkona mín hafði það hlutverk að skemmta skáldinu. Það er víst ekki auðvelt að kalla fram fjör og hressileika hjá þessum alvarlega manni. Honum finnst að minnsta kosti ekki gaman að hlusta á tal forlagskonunnar, hann svaraði fáu, næstum engu,  og á endanum sagði hann að hann nennti ekki að hlusta á hana! Þá höfðu þau verið saman í 3 klukkustundir og heil helgi framundan. Eftir slíkar kveðjur er erfitt að vera saman með manni næstu 48 tíma og sjá til þess að hann hafi það gott og skemmti sér.

pps Nú hef ég lesið Coetzee alla flugferðina til Osló. Vansæmd er hrein snilld. Takk, Rúnar Helgi, fyrir stórfína þýðingu. Takk neon flott kápa! Og takk  mr. Coetzee, Nú geturðu hoppað og hlegið af kæti ég er svo ánægður með þig og hvernig þú skrifar.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.