Að bera harm sinn með hljóðum

Á heimleið úr skíðafríi. Sit nú í lestinni frá Lillehammer til Osló og svo fljúgum við í kvöld til Kaupmannahafnar. Satt að segja hefur Hafjell komið mér á óvart. Skíðabrautirnar eru góðar og fjölbreyttar, lyfturnar hraðvirkar, engar raðir og veðrið hefur verið ansi gott. Eins hafa móttökurnar sem við fengum hjá fjölskyldu vinkonu Sus verið mjög hlýlegar og fínar.

Á morgun byrjar hversdagsbaráttan aftur. Ég veit ekki hvort ég fari inn til Kaupmannahafnar að vinna mér félag mínum kvikmyndagerðarmanninum. Hann hefur þjáðst alla vikuna af því sem hann kallar magavírus. Ég veit ekki hvað raunverulega amar að honum en hann er dramakóngur og þær kvalir sem hann líður eru alltaf óbærilegar. Hann ber ekki harm sinn í hljóði. Hann fylgist líka með tískunni og mér skilst að nú eigi maður að bera harm sinn með hljóðum og helst fá athygli fjölmiðla fyrir bágindi sín.

Einn félagi minn sendi mér kveðju á meðan ég dvaldi í skíðabúðunum í Hafjell og sagði mér meðal annars í fréttum að hann er áskrifandi að tveimur bókaklúbbum, neon og Sólinni. Og báðir klúbbarnir sendu honum bók eftir Ellene Ferrante í síðustu viku. Neon klúbburinn færði honum Óþægilega ást sem er fyrsta bók Ferrante og kom út  fyrir 26 árum eða árið 1992. Þessi bók uppfyllir kannski ekki alveg þau fyrirheit sem klúbburinn gaf þegar hann var stofnaður um að kynna það nýjasta og besta í bókmenntum heimsins. Ég veit ekki hvaða bók Sólin sendi. En félagi minn spyr. „Er þetta góðs viti að klúbbarnir sendi báðir bækur eftir sama höfund?“ Ég átti svo sem ekkert svar fyrir hann. Sennilega er þetta ekki góðs viti.

ps fékk sms frá félaga mínum kvikmyndgerðarmanninum. „Ég er í toppformi, er á leið út að hlaupa 10 km. Kemurðu á morgun? Hálf níu?“ Ég mæti að sjálfsögðu!

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.