Tryggðarhring kastað út í sjó af ungum tískumanni

Ferðin til Kaupmannahafnar í gær var að mörgu leyti söguleg. Vinur minn kvikmyndagerðarmaðurinn býr úti á Amager þar sem allt er í mikilli uppbyggingu. Svæðið hefur lengi verið einskonar Breiðholt Kaupmannahafnar. Þar hefur húsnæði verið ódýrara og ekki eins eftirsótt og annars staðar í borginni. En nú hefur Amager fengið nýjan status: hipsterparadís og vinur minn er heimsins mesti hipster.

Þeir, kvikmyndagerðarmaðurinn og vinur hans, vildu fá mig með í verkefni og höfðu undirbúið mikið þriggja tíma show til að kynna fyrir mér hvað þeir ætluðu sér. Það var stórbrotið og skemmtilegt en ég er ekki rétti maðurinn í þetta dæmi þeirra. Ég er nískur á tímann minn, vil bara taka þátt í einhverju þar sem ég er í essinu mínu og kem að gagni og mér finnst ég eiga annaríkt þessa dagana þótt ég sé frjáls eins og fuglinn.

Á leiðinni heim gekk ég niður til Amagerstrandar. Mér finnst gaman að ganga um í höfuðstaðnum og þar er annar púls en inni í mínum litla bæ. Á vegi mínum niður á strönd sá ég lítinn almenningsgarð með bekkjum og æfingatækjum. Þaðan er stutt niður að sjó og fallegt útsýni. Ég setti mig niður á einn af bekkjunum, ég er bekkjafíkill. Mér finnst gaman að sitja á bekkjum ef veðrið er gott. Þar finnst mér ég hvílast svo vel. Sjórinn var sléttur enda algert logn.

Ég hafði tekið eftir ungum manni sem talaði í síma inni í garðinum og horfði út á sjóinn undir samtalinu. Hann hafði augljóslega komið á hjólinu sínu því hann stóð og hallaði sér upp að svörtu reiðhjóli meðan hann talaði í símann. Hann var hipster, með sítt alskegg, í fínum hipsterfötum og með sixpensara á höfðinu. Ég skildi fljótlega að hann var í uppnámi því ég heyrði að af og til hrópaði hann í símann. Af orðum hans að dæma talaði hann við kærustu sína eða eiginkonu því hann hálföskraði: „En það ert þú sem vilt skilja. Það var ekki ég sem fór fram á það.“ Ég hafði ekki setið lengi á bekknum áður en ég fór að ókyrrast því mér fannst óþægilegt að vera vitni af þessu samtali. Þótt ég nyti þess að horfa yfir hafið og finna fyrir hinum sterka hjartslætti  höfuðstaðarins á bak við mig ákvað ég fljótlega að flytja mig um set því ég gat ekki setið undir þessu tilfinningaþrungna samtali mannsins sem barst yfir allan almenningsgarðinn. Ég stóð því á fætur og gekk af stað. Um leið og ég gekk í átt að manninum (ég neyddist til þess því útgangurinn var á stígnum bak við hann) sá ég að hann hafði hætt að tala í símann. Hann setti símann í frakkavasann, tyllti sér á bekkinn og horfði niður fyrir sig. Ég sá ekki betur en hann gréti. Skyndilega, og af mikilli heift spratt maðurinn á fætur, tók hring sem hann hafði á vinstri hendi af sér og í einni og sömu hreyfingunni kastaði hann hringnum út í sjó. Aumingjalegt plúbb heyrðist þegar hringurinn klauf hafflötinn.

Ég hlýt að hafa staldrað við í undrun minni. Því allt í einu sneri hann sér að mér og sagði í uppgjafatón:
„Þú skalt ekki skipta þér af þessu.“
„Nei, fyrirgefðu, ég ætlaði ekki að skipta mér af þessu … Er allt í lagi með þig?“ sagði ég hikandi. Ég gat ekki annað, því ég sá þessa átakanlegu örvæntingu í andliti mannsins.
„Já … þetta er allt í lagi … þú skalt ekki hafa áhyggjur af mér. Ég hjóla bara heim … ég sest hérna smástund.“

Ég stóð stundarkorn og virti fyrir mér þennan unga mann sem satt hokinn á bekknum og horfði niður fyrir sig. Svarta reiðhjólinu hafði hann stillt upp við bekkinn. Hann leit upp eitt andartak: „Þakka þér fyrir, en þetta er allt í lagi… Það er allt í lagi með mig.“ Ég hikaði en ákvað svo að leyfa þessum unga, hringlausa tískumanni að vera einn með hugsunum sínum.

 

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.