Ég var allur svo hress í morgun að þegar ég sá svörtu, fínu skóna mína í skógrindinni í morgun ákvað ég samstundis að ganga í þeim í vinnuna í dag. Ég fann hvað ég myndi fljúga ef ég gengi af stað á þeim. Ég var í stuði, ég var fisléttur, ég hafði mörg áform í hausnum og allt virkaði auðvelt. Samt svaf ég alls ekki lengi eða vel. Ég hafði lesið inn í miðja nótt handrit að bók sem ég fékk sent í fyrradag. (Aftur að bókinni seinna. Það býr nefnilega furðuleg saga bak við að ég hafi handritið að þessari sjálfsævisögulegu bók undir höndum.) En ég fór í fínu skóna mína sem ég keypti á Íslandi áður en ég lagði í hann til New York í fyrrasumar í tískuversluninni sem Kaldal var módel fyrir.
Ég arkaði af stað löngu áður en aðrir í litla bænum mínum voru komnir út í morguninn. Ég var sannarlega léttur á göngunni – léttur í höfðinu – á leið minni upp á skrifstofu og ekki spilltu fínu skórnir mínir fyrir.
Á göngunni varð mér hugsað til höfundarins að bókarhandritinu sem ég les og áramótaveislu sem við höfðum hist í fyrir mörgum árum. Það var ein mislukkaðasta veisla sem ég hef verið í. Vinur minn, höfundurinn hafði fengið mig með í þennan áramótafögnuð sem vinahjón hans héldu; arkitekt og saumakona í leikhúsi. Auk þeirra voru í veislunni þáverandi kona rithöfundarins sem er tónlistarmaður, auglýsingamaður með tískurétt gleraugu (hann sá um matinn, þar sem fylltir smáfuglar voru aðalréttur) og kona hans sem var barnaskólakennari. Ég þekkti engan nema rithöfundinn og konu hans. En andrúmsloftið var ekki gott. Gestgjafakonan, saumakonan, varð strax undarlega drukkin og daðraði við alla karlmenn veislunnar á alltof nærgöngulan hátt. Auglýsingamaðurinn beit strax á daðuröngulinn og talaði alla máltíðina í tvíræðum tón um sameiginlega fortíð hans og hinnar daðrandi saumakonu.
Ég sat við hlið konu auglýsingamannsins undir kvöldmáltíðinni og hún hafði það sannarlega ekki gott undir samspili eiginmannsins og saumakonunnar. Þrátt fyrir að sessunautur minn reyndi að halda uppi samtali við mig, hafði hún ekki augun af manni sínum og hinni ölvuðu saumakonu.
Þegar smáfuglarnir höfðu verið borðaðir kvað rithöfundurinn sér hljóðs, honum finnst gaman að vera í sviðsljósinu. Hann stóð upp sló létt á vínglasið sitt með desertteskeiðinni og hóf mál sitt á að hann vildi segja okkur frá áramótaheiti sínu og svo langaði hann til að við segðum frá áramótaheitum okkar. Ef við höfum ekki fundið áramótaheit skyldum við drífa í að finna eitt almennilegt sem við gætum staðið við, því hann lagði til að við skyldum hittast að ári liðnu þar sem við gæfum veislugestum skýrslu um hvernig hafi gengið að halda heit okkar. Ég fór strax að hugsa hvaða áramótaheit ég gæti kynnt, en mér datt ekkert í hug. Ég var kominn í hálfvont skap. Þessi veisla var ömurleg. En rithöfundurinn byrjaði:
„Mitt áramótaheit er einfalt og það er auðvelt að mæla hvort mér hafi tekist að halda mitt heit að ári liðnu. Því ég ætla að merkja við á dagatali og koma með dagatalið í næstu áramótaveislu sem einskonar vitnisburð um árangurinn. Á árinu sem gengur í hönd ætla ég að ríða, eða sofa hjá, eða hvernig sem þið viljið orða það, 300 sinnum á þeim 364 dögum sem næsta ár er.“ Sumir veislugestir flissuðu, og saumakonan hæst af öllum.
„Gott! Þú getur byrjað á mér í kvöld,“ sagði saumakonan og arkitektinn maður hennar reyndi að brosa að konu sinni en það var frekar stíft bros. Tónlistarkonan, eiginkona rithöfundarins, brosti ekki. Henni var ekki skemmt.
„Er ég með í þessu plani þínu?“ spurði hún snúðug.
„Viltu ekki vera með? Það er undir þér komið,“ sagði rithöfundurinn.
Það sem eftir lifði kvölds var töluverð kaos í loftinu. Auglýsingamaðurinn reyndi að laumast með saumakonunni inn í svefnherbergi, en eiginkona auglýsingamannsins hafði ekki sleppt augunum af manni sínum, svo hann var gripinn með buxurnar á hælunum og veislan leystist fljótlega upp þar á eftir.
Ég segi frá þessu hér því í sjálfsævisöglegu bókarhandriti rithöfundarins sem ég las í nótt – vinnuheitið er Samtöl mín við konu mína – er meðal annars er fjallað um þessa áramótaveislu, áramótaheit höfundarins, hver var kveikjan að þessu ögrandi heiti og að hvort honum hafi tekist að uppfylla áform sín.
Höfundurinn og tónlistarmaðurinn skyldu nokkrum mánuðum eftir veisluna og nú hefur höfundurinn fundið aðra konu og fjallar bókin um samtöl og samlíf þeirra.
ps. á meðan ég skrifaði þessa dagbókarfærslu hlustaði ég á söngkonuna umræddu á Spotify