Að æsa hálfa þjóðina rétt fyrir háttatíma

Það er langt síðan ég hef minnst á útvarpsþáttinn Lestina enda er óralangt síðan ég hef hlustað á hann. Það er ekki vegna þess að ég hef misst áhugann, þvert á móti ég brenn af áhuga. Ástæðan fyrir því að útvarpsþátturinn hefur ekki verið í eyrunum á mér á göngu minni til vinnu er að ég hef týnt eyrnahátölurunum, heyrnartólunum eða hvað headphone heitir nú á íslensku.  En í morgun fékk ég lánaða headphones hjá unglingunum mínum honum Núma. Ég hlusta bara á einhvern þátt af handhófi og lenti á þætti frá 24. nóvember þar sem Eiríkur þusaði yfir svörtum föstudegi og jólakaupæðinu. Það var svolítið fyndið hérna í vorloftinu og fuglasöngnum að hlusta á mann vera að bugast í miðju jólaæði.

Ég hitti konu sem ég þekki  í gær úti á götu. Í henni ólgar blóðið. Henni liggur alltaf eitthvað mikilvægt á hjarta þegar ég hitti hana. Í gær fór hún að segja mér frá því að hún er svo viss um að við eigum eftir skammast okkur svo mikið eftir nokkur ár yfir þeim tíma sem við lifum nú. „Við eigum eftir að horfa til þessa tíma sem við lifum núna með hryllingi. Þetta er það tímabil í sögunni þar sem við höldum að það gagnist eitthvað að safna ósammála fólki saman í sjónvarpi eða útvarpi … það er að segja fólki sem er ósammála og biðja það um að rífast í fimm mínútur.“ Hún horfir á mig til að ganga úr skugga um að ég skilji hvað hún er að tala um.

„Enginn verður vitrari á að hlusta á þetta, bara enn reiðari,“ sagði hún. „Við lifum á tímum reiðinnar, hér þrífst menning reiðinnar. Hvert einasta kvöld … hvert einasta kvöld er fólk að rífast í sjónvarpinu. Ó, hvað við eigum eftir að skammast okkar eftir 10 ár. Við eigum eftir að rífa í hár okkar af skömm,“ segir hún. „Við munum rífa í hár okkar (hún rífur í hár sér til að sýna mér hvernig við gerum eftir 10 ár)  af skömm yfir þeim tíma  þar sem við trúðum á að deilur, þar sem við trúðum á að við þyrftum að draga fram alla óeiningu, sérhverja sprungu í samfélaginu. Maður etur konum á móti körlum, körlum á móti konum, okkur á móti þeim, ríkum á móti fátækum, fátækum á móti ríkum, börnum móti fullorðnum, allar andstæður skulu dregnar fram og við skulum hlúa að andstæðunum. Allt sem hægt er að rífast um skulum við rífast um,“ segir hún og strýkur ljósan hártoppinn frá brúnum augunum. Þetta er innilegur fyrirlestur og ég hef heyrt hana fara með hann áður.

„Í gær sá ég fólk rífast um hvort fólk ætti að keyra bíl á milli staða og á morgun verða skrifaðar þúsund reiðilegar færslur um efnið og fólki finnst það sigur … sigur fyrir lýðræðið, sigur fyrir menninguna, sigur að enn og aftur takist einhverjum fréttamönnum og þáttastjórnendum að æsa hálfa þjóðina rétt fyrir háttatíma.“

Annars var ég að koma úr tenniskappleik og ég tapaði! Thomas spilar bara betur en ég þessar vikurnar.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.