Enn geisar hér Síberíuvetur, ég sem hélt að vorið væri að koma. Ég er á leið út að ganga til að láta austanvindana blása úr mér svefninn, gærkvöldið (veislukvöld) og fá vinnukraft í kroppinn. Á morgun flýg ég til Íslands í leit minni að meiri yl.
(hlé)
Ég er búinn að ganga úti í kuldanum, langan göngutúr. Ég hef sest niður fyrir framan dagbókina mína og ætlað að skrifa en ég fann að ég var ekki í stuði. Langaði ekki að segja frá neinu. Settist því niður í fína lesstólinn minn og hélt áfram að lesa handritið sem ég fékk sent í vikunni. Hélt ég mundi fá einhverja andargift frá textanum. En það gerðist ekki. (Á meðan ég sit hér og skrifa kom SMS frá höfundinum sem biður mig endilega að vera krítískur á bókina hans. Ég sé eini eftirlifandi karlmaðurinn í forlagsbransanum. Ég er eini karlmaðurinn sem hefur lesið handritið). Handritið er gott. Höfundurinn reynir svo mikið að segja sannleikann, reynir ekki að fela sig bak við neitt eða vera annað en hann er og það krefst bæði hugrekkis og styrks.
Ég er búinn a skrifa 812 færslur í dagbókina mína (Kaktusinn) og aftur og aftur verð ég að minna mig á að ég skrifa dagbókina bara fyrir sjálfan mig. Enn á ný verð ég að viðurkenna fyrir sjálfum mér að lesendur dagbókarinnar trufla mig. Mér finnst að þeir verði að fá eitthvað fyrir sinn snúð en samtímis reyni ég að láta sem þeir eru ekki til. Ég er meira að segja farinn að hugsa „aumingja þeir sem hafa farið inn á Kaktusinn, það er ekkert nýtt þar“ ef ég er seinn með færslu dagsins. Þetta er auðvitað rugl; hvað er ég að hugsa um hugsanlega lesendur! Ég gæti auðvitað valið að loka dagbókinni fyrir lesendum, það mundi breyta því sem ég skrifa og hvernig ég skrifa. Það er drive í því að vita af lesendum, fá feedback, jafnvel skammir.
Í gær tók ég skorpu í Pep Guardiola bókinni; það er að segja ég hélt áfram að velta bókinni fyrir mér.