Listi yfir farangur til Íslands

Ferðalag til Íslands í þrjá daga og nú er ég í lestinni á leið til Kastrup. Ég hef ekki mikinn farangur, ég hef aldrei mikinn farangur. Stundum er það nánast neyðarlegt hvað ég þarf lítið með mér og þess vegna, ef ég ferðast með öðrum karlmönnum eða ókunnugu fólki, tek ég alltaf meðferðis hluti sem ég hef ekki not fyrir. Bara til að líta út fyrir að ég kunni mig.  Að kunna sig, ég er ekki góður í því.

Til þessarar ferðar hef ég meðferðis:
IMG_1148Vansæmd, JM Coetzee (kilja). Ég náði ekki að klára bókina á síðasta ferðlagi og síðan þá hef ég ekki lesið í sögunni. Ég hlakka til að klára bókina því þetta er bara ein besta bóksem ég hef lesið.  Yo.
iPad. Með fullt af bókum sem ég er að lesa eða vill lesa. En iPadinn hef ég fyrst og fremst með vegna þess að þar geymi ég handrit vinar míns sem ég er að lesa akkúrat nú og ætla að skrifa skýrslu til hans þegar ég er búinn. Þetta er ansi fín bók hjá honum félaga mínum, hann skrifar af miklum þrótti og textinn er mjög áhugaverður. Ef þessi bók væri saminn á íslensku og ég væri íslenskur forleggjari mundi ég hoppa hæð mína í loft upp yfir möguleikanum að fá að gefa hana út. Dúndurstöff mundi ég hugsa.
IMG_1150Tannbursti í plastpoka. Ég á enga snyrtitösku enda fullkominn óþarfi að setja einn tannbursta í snyrtitösku. Ég á engin krem, kann ekki einu sinni að nota krem. Ilmgjafa nota ég ekki, mér finnst ég sjálfur bara lykta toppvel. Ég veit ekki einu sinni hvað karlmenn geyma í sínum úttroðnu snyrtiveskjum. Tannbursti í poka er mitt snyrtivopnabúr.
Rakvél frá Gillette. Þessi litli skrapari gæti auðvitað verið í snyrtitöskunni. Minn mikli skeggvöxtur neyðir mig til að taka rakvélina með. Nei, ég gæti alveg verið án hennar. Skeggvöxtur minn er svo slappur að það er til skammar. Taðskegglingur eins og Njáll.
MacAir. Vinnutækið mitt. 40.000 slög á dag. 7000 orð, afkastar MacAir á einum degi.  Þetta er tækið sem ég get ekki verið án. Excel, Word, Photoshop, Outlook, Spotify, Chorme. Hvað er ég án þessara forrita?
Þrennar nærbuxur. Einar  nærbuxur fyrir hven dag. (Minnir mig alltaf á bekkjarfélaga minn úr barnaskóla sem hét Einar en var alltaf kallaður Tvennar og í unglingadeildinni var hann svo kallaður Þrennar. Barnaskólahúmor.)
Sokkar. Nokkur sokkapör fylgja mér til Íslands. Ekki vil ég að fólk deyi úr táfýlu í kringum mig.
Safn af pennum. Ég er haldinn geðveiki. Ég stel alltaf pennum á hótelum og veitingastöðum og set í töskuna mína og nú eru 2 kg af pennum í botni töskunnar minnar.
IMG_1145Nafnspjöld. Ég geymi helling af mínum eigin nafnspjöldum í töskunni minni. Ég notað þau ekki til annars en að geyma þau í töskunni. Ef ég týni eða gleymi þessari litlu hliðartösku einhvers staðar geta þeir sem finna hana gripið eitt af þessum nafnspjöldum og hringt til mín og sagt mér að þeir hafa fundið töskuna mína. Það hefur gerst oftar en einu sinni.
Gleraugu. Ég hef þrenn gleraugu með. Ég er ósjálfbjarga án gleraugna. Sjónin er að hverfa, ég sé ekkert til að lesa nema með gleraugum. Ég hef þess vegna þrenn með til að vera viss um að ég hafi alltaf gleraugu til taks.
Hleðslutæki. Ég hef hleðslutæki fyrir iPad (hann   er gamall og hefur gamla innistungu) iPhone, MacAir og Fitbit (ég ætla ekki að verða FitBit-batteríslaus, nógu illa gengur í keppninni við Kaldal með fulla hleðslu i FitBit-batteríinu.)
Vegabréf. Ég veit ekki hvers vegna en ég hef alltaf vegabréf með á ferðalögum.
IMG_1146Elspýtur. Ég er líka haldinn annarri geðveiki. Ég tek alltaf eldspýtnabréf með frá hótelherbergjum og veitingastöðum. Nú liggja tveir eldspýtnastokkar í töskunni minni. Einn frá veitingastað í Sviss og annar frá veitingastað í Berlín.
Lyklar. Ég hef lyklana mína meðferðis. Lyklana að heimili mínu, hjólinu mínu, póstkassanum og skrifstofunni.
A-4 útprent af grein frá New York Times sem ég ætla að lesa í flugvélinni til Íslands.
Mynt. Af einhverjum ástæðum liggja evru-mynt á botni tösku minnar. 7 evrur í centum.
IMG_1150Páskaegg. Ég hef 4 lítil páskaegg með fyrir litlu barnabörnin mín. Bara til að gleðja þau með einhverju fínu og gljáandi.

Þetta er farteskið og bráðum flýg ég af stað með Boeing-vélinni til Íslands. Lendi klukkan tvö, tek rútuna í bæinn og geng svo frá BSÍ, framhjá Háskólanum og  upp á Hjarðarhaga heim til Söndru. Kannski rekst ég á Hauk Ingvarsson á göngunni, hann býr á Hjarðarhaga. Eða Eirík, hann býr á Hjarðarhaga. Hann mundi segja, „nei, Snabberí, ertu á göngu á Hjarðarhaga?“
Ég mundi segja: „Komdu sæll og blessaður, elskan mín. Nú er ég kominn til þín og yfirgef þig aldrei aftur.“ Og svo mundum við faðmast og hlæja að því hvað við erum báðir vitlausir, sérstaklega Eiríkur. Hann er í bláu peysunni sinni og hefur gleymt að greiða sér áður en hann gekk út úr húsi.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.