Menn á vegi mínum

Í gær þegar ég gekk á fund Jóns Karls í Skipasundinu kom ég við hjá Húberti Nóa á vinnustofu hans. Á þessum stutta göngutúr tókst mér að sanka að mér fjórum bókum sem vegfarendur sem ég kannaðist við frá gömlum dögum gaukuðu að mér í vinsemd sinni. Ég hitti í rauninni óvenju marga sem ég þekki í þessari ferð. Ég verð að skrifa lista yfir allt þetta fólk, hugsaði ég. Hér kemur listi yfir fólk sem ég hitti fyrir utan fjölskyldu mína.

Hitti Pál Valsson í morgunmat á Kaffi Vest. Ég átti stefnumót með mínum gamla vini snemma dags. Snerist samtalið um skíðferðir, aðsókn nýrra rithöfunda í að fá útgefnar bækur og væntanlega sumarferð.

Á meðan við Palli spjölluðum um framtíð og fortíð gekk ungur maður með þungan bakpoka á bakinu og vinkaði okkur í gegnum gluggann á kaffihúsinu. Þarna var á ferðinni Haukur Ingvarsson, maðurinn sem menn töldu að yrði næsti ritstjóri Máls og menningartímaritsins. Við Palli veltum mjög fyrir okkur hvað fræðimaðurinn Haukur hefði í þessum þunga bakpoka, því það virtist sem hann væri nánast að sligast undan þunga pokans. Kannski var það bara samviskan sem var að sliga hann? Þegar ég gekk heim á leið frá Kaffi Vest sá ég að einhver (Haukur?) hafði sprayað stórum stöfum á húsvegg: LIFI HAUKUR! (sjá mynd). Málningin var vart þornuð og sá ég þá aftur fyrir hugskotssjónum mínum úttroðinn bakpoka á öxlum Hauks. Var hann pokinn fullur af spraybrúsum?

IMG_1171
Er þetta verk Hauks Ingvarssonar?

Annar maður kom kumpánlega til okkar Palla þar sem við sátum með litlu espressobollana og tók vinsamlega í hönd okkar. „Vildi bara aðeins heilsa upp á ykkur, félagar,“ sagði hinn brosmildi Gísli Marteinn og hneigði sig lítillega. Mér varð eiginleg strax hugsað til Tinnaþáttanna hans fyrir útvarp sem ég hef heyrt margt gott um og ég ætla að hlusta á.

Ég hitti annan Gísla á göngu minni niður á Ægissíðu. Á móti mér kom maður gangandi með lítil, kolsvört sólgleraugu. Ég þekkti ekki manninn, ég gekk því bara greiðlega án þess að virða manninn viðlits. „Fyrirgefðu,“ heyri ég manninn segja og sá að hann nam staðar. „Já,“ segi ég, oftast tilbúinn að fyrirgefa hvað sem er.
„Já…  býrð þú ekki í Berlín?“
„Nei, ég bý ekki í Berlín.“ Ég hika aðeins og velti fyrir mér hvort ég eigi að veita honum frekari upplýsingar um búsetustað minn. Ég var ekki viss því ég hafði ekki hugmynd hver þessi maður með sólgleraugun var. En af innbyggðri kurteisi bæti ég við „að ég búi þó ekki í Reykjavík, heldur í Danmörku.“
„Einmitt það, já,“ sagir maðurinn og fagnaði augljóslega þessum viðbótarupplýsingum um síðhærða göngumanninn.
„Ég heiti, Gísli (og svo bætti hann við föðurnafni sem ég bara hvorki heyrði almennilega né kveikti nafnið neinum ljósum)… Ég er vinur Ugga Jónssonar og heyrði að þið hefðuð hist í Berlín…“
Síðan spjölluðum við stutta stund.

Ég hitti Dag Kára daginn eftir á Kaffi Vest þar sem við ætluðum báðir að fá okkur morgunkaffi. Umræður okkar Dags snerust auðvitað um að búa í Danmörku, um að búa á Íslandi og mismuninn þar á milli. Hvar maður ætti heima og hver var kostur þess að búa utan heimalands. Reyndist þetta verða langt og mjög ánægjulegt spjall.

Dagur Kári var á leið í sund svo við kvöddumst og ég sótti mér kaffibolla en þegar ég kem til baka með rjúkandi kaffið hefur kona sest í sæti mitt. Ég færði mig því  um set og settist á næsta borð. „Sæll,“ segir konan þegar ég hafði komið mér fyrir. „Langt síðan við höfum sést.“ Ég vissi ekki hver þessa fína og brosmilda kona var og viðurkenndi það skömmustulega. „Ragna Sara Jónsdóttir. Við unnum einu sinni saman.“ Samtöl okkur snerust þar á eftir að vera frumkvöðull, að stofna fyrirtæki og koma þeim á legg.

Ég átti stefnumót við Húbert Nóa á vinnustofunni hans. Myndlist, hlutverk stjörnumerkja í að staðsetja okkur í veröldinni. Þýðingu sælgætis s.s. Twix og Bounty í félagslegum samskiptum ungra manna.

Margrét Bjarnadóttir kom gangandi inn á vinnustofuna eins og engill og færði mér bók sína Orðið á götunni og við spjölluðum  líka um Twix og setningar sem maður grípur á lofti og hvað hægt sé að gera við þær.

Valdimar Tómasson beið eftir strætó þegar ég átti leið framhjá biðskýli við Hlemm. Hann sagði mér með sínum letilega talanda, sem minnir mig alltaf á malandi kött, hverjir hefðu komið á minningarsamkomu í Iðnó og hverjir hefðu ekki komið. Að lokum færði hann mér fína bók sína Dvalið við dauðalindir.

Á göngu minni upp Brautarholtið kom Jakob Ásgeirsson útgefandi akandi upp að mér á Volkswagen-bil sínum og við spjölluðum um leiðir til að finna metsölubækur, hvernig rækta má nef fyrir sölubókum og lítil prentupplög. Alltaf þegar ég hitti Jakob hugsa ég um hvað mér þótti hann hugrakkur menntaskóladrengur – en við gengum í sama menntskóla á sama tíma –  því hann sigldi óhræddur á móti straumnum og hann var sterkur í þá tíð. Hann gaf mér tvær bækur, Marilynne Robinson Gilead og Sögur frá Rússlandi í þýðingu Áslaugar Agnarsdóttur.

Ég hitti Jón Karl Helgason í Skipasundi og hann færði mér ristað brauð og tómata á meðan við spjölluðum um hundauppeldi, verðlag á grænmeti og appelsínum á mörkuðum í smábæjum á Suður-Ítalíu og þau mörgu skref sem það að krefur að breyta iðnaðarhúsnæðis í íbúðarhúsnæði.

Ég hitti Einar Fal Ingólfsson, Jón Kaldal, Magnús Guðmundsson og Magnús Ásgeirsson (Kalman, Þorstein J. og Eiríkur forfallaðir) og við spjölluðum frá klukkan 17:00 -24:00 um feðraveldið, Boeing 747 flugherma, vopnasölu Svía, innflutning kaffistells frá Kína og væntanleg stórafmæli.

Viðhjálmur Vilhjálmsson var í yfirvinnu á skrifstofu sinni og bauð okkur karlmönnunum inn á lögfræðistofu sína, þegar við vorum á leið heim frá Kexi. Hann var fljótur að setja Nick Cave á fóninn á og fræddi hann okkur um glæpi og hvað glæpamaður telur hæfilega refsingu við þeim.

Ásgeir Daníelsson, stoppað á hlaupum sínum með hund til að fræða mig um leiðir til að halda ellinni í skefjum.

Adolf Friðriksson fylgdi mér í næturrútunni til Keflavíkur og sagði mér frá samstarfi sínu við Guðjón Þórðarson knattspyrnuþjálfara, leik West Ham gegn Wigan þar sem Freddie Ljungberg spilaði fyrir West Ham. Freddie náði að leika 25 leiki fyrir West Ham en var að lokum beðinn að hætta og fékk greiddar 6 milljónir punda (850 milljónir) fyrir að samþykkja það.

 

 

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.