Biðin eftir kossinum

Það er alltaf gott að vakna – hvort sem maður er staddur í Sevilla, Reykjavík, Espergærde – og vera í bullandi forystu í hinni miklu fitBit-keppni okkar Kaldals. Ég finn gleðistrauminn hríslast um líkamann. Yo!

En þennan morgun vaknaði ég í Sevilla við að kirkjuklukkurnar kölluðu til messu og ég heyrði fóttak fyrir utan gluggann minn; fólk á leið til guðsþjónustu. Trúin er mikilvægur hluti lífs fólks hér, það finnur maður. Í gærkvöldi þegar við vorum á leið út á tapas-barinn hér neðar í götunni, gengum við framhjá kílómetralangri röð fólks sem beið þess að komast inn í litla kapellu. Ég vatt mér að ungri konu sem stóð í röðinni og spurði hana eftir hverju hún væri að bíða; hví stæði hún í þessari löngu röð. Hún átti erfitt með að tala ensku og fleiri í röðinni blönduðu sér i samræðurnar. Allir áfjáðir í að gera mér skiljanlegt hvað væri þess virði að bíða lengi í langri röð. Enginn talaði ensku en af látbragði fólksins og með mínu örlitla innsæi inn í hina spænsku tungu skildi ég að fólk vildi fá blessun inni í kapellunni, fá handarkoss. Mér finnst bara áhugavert þegar fólk gengur svo mjög upp í einhverju öðru en sjálfu sér að það er tilbúið að leggja á sig bið og fórna tíma til að sinna því sem því finnst sér æðra.

 

dagbók

Skildu eftir svar