Veitingahús í Reykjavík með bóksölu á tveimur hæðum.

„Er með rekstur til sölu á einum besta stað við Laugaveginn rétt fyrir ofan Bankastræti. Um er að ræða verslun á tveimur hæðum og kjallari.  Hluti af efri hæðinni er rekin sem veitingahús en hinar hæðirnar eru reknar sem bókaverslun. Hægt er að stækka veitingareksturinn,  minnka bókaverslunina og bæta við annars konar seljanlegri vöru en það eru margir möguleikar þar. Frábær staðsetning fyrir allskonar gjafavörur í miðdepli ferðamannastraumsins.“

Þetta bréf barst mér í gær. Ef einhver er í vafa um hverju hér er verið að lýsa til sölu eða leigu þá get ég upplýst það strax. Þetta er gamla bókabúð Máls og menningar á Laugavegi 18, ekki veitingahús með bóksölu á tveimur hæðum eins og menn gætu kannski haldið af lýsingunni. Svakalegt hve illa er komið fyrir þessu gamla flaggskipi íslenskrar bóksölu, bókabúð sem í rauninni var stórkostleg menningarstofnun á sínum tíma. Einhver ætti að taka sig til og bjarga þessara góðu bókabúð og lyfta henni aftur upp á sinn gamla stall. Sennilega er það barnaleg hugsun að þetta gæti orðið að veruleika en ég væri til í að vera með í slíku.

Hér í Sevilla, sem er stórfalleg og skemmtileg borg, er mikil helgivika. Páskavikan er haldin hátíðleg og frá hádegi fram á nótt er marserað eftir götunum í löngum skrúðgöngum með níðþung líkneski. Gífurlegur mannfjöldi er úti á götunum, á veitingastöðum og út um allt. Allir eru klæddir í sitt fínasta púss; drengir í jakkafötum með bindi, stúlkur í sínum besta skrautfatnaði. Ég skil ekki alveg göngubúninginn sem þeir sem staðsettir eru mitt í göngunni eru klæddir; þetta er eins konar KKK-búningur. Ég tók mynd af tveimur drengjum sem stilltu sig upp fyrir mig, að launum fékk ég einskonar nafnspjald með tveimur trúarupphrópunum.

IMG_1228
Nafnspjald kufldrengjanna

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.