Reykjavík, bókmenntaborg

Eftir skamma stund sest ég upp í bíl og keyri suður á bóginn, fyrst í gegnum Malaga og svo meðfram ströndinni lengra suður og vestur. Næstu daga ætlum við að dvelja í bænum Elvira. Þar ætla ég að spila tennis, lesa bækur og halda áfram með verkefni mín. Það er slíkur gífurlegur mannfjöldi úti á götum hér í Sevilla, til að fylgjast með vikulangri skrúðgöngu með trúarlíkneski, að maður kemst vart leiðar sinnar. Lúðrasveitirnar sem fylgja skrúðgöngunum spila undurfallega. Ég er dáleiddur af þessum spænsku tregasöngvum í lúðrasveitarbúningi.

Það voru nokkrir sem höfðu samband við mig í gær vegna bókabúðar Máls og menningar á Laugavegi og var nokkrum á orði að undarlegt að Reykjavík væri menningarborg UNESCO og þar væri varla almennileg bókabúð. Ég kíkti á vefsíðu Bókmenntaborgarinnar til að athuga hvað sagt væri um bókmenntir og rakst þá á þetta á síðu Bókmenntaborgarinnar um bókabúð Máls og menningar, Laugavegi 18: „Bacon ipsum dolor amet burgdoggen t-bone ground round, ham pork belly shankle shoulder pork fatbac… “ (ég er ekki að búa þetta til). Bókmenntaborgin lítur augljóslega líka á þessa bókabúð sem veitingastað með bóksölu á tveimur hæðum.

Þessa dagana les ég ævisögur Pep Guardiola. Mikið geta slíkar íþróttaævisögur verið leiðinlegar. Ég hef gaman að fótbolta en leiklýsingar í bók verða sjaldnast spennandi né skemmtilegar.

 

 

 

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.