Það er betra að hafa elskað og misst en aldrei að hafa elskað

Ég á það til að byrja að lesa nýjar bækur áður en ég klár þær sem ég er í gangi með, bara af því ég er svo forvitinn að vita hvernig næsta bók er. Nú gat ég ekki á mér setið og byrjaði á Julian Branes, THE ONLY STORY. Furðulegt sem það nú er, minnir Julian Barnes mig alltaf á Jón Karl Helgason, ekki í útliti heldur bara þegar ég les eða heyri nafn höfundarins kemur Jón Karl mér í hug. Þeir eru félagar í bókmenntunum.

Það er betra að hafa elskað og misst en aldrei að hafa elskað, segir Julian Barnes.

Ég nýt daganna hér á Spáni og ég finn að ég er farinn að læra betur og betur að njóta daganna yfirleitt. Ég held að lykilatriðið sé að ég er farinn að spara orku. Ég eyði ekki orku í það sem er í mínum augum fánýtt og þar með hef ég svo mikla afgangsorku í það sem ég tek mér fyrir hendur. Ég næ að hafa fulla einbeitingu, hátt orkustig og hátt gleðistig í þeim verkefnum sem ég sýsla með. Ég minnst á þetta hér þar sem ég heyri æ oftar um fólk sem er að bugast undan sjálfu sér. Það kallar það að bugast undan nútímanum sem er örugglega réttnefni. Að sumu leyti er það merkilegt að svo margir verða undir einmitt nú þegar aldrei hefur verið léttara að lifa af.

Mér finnst ég ekki ná að ýta mínum góðu verkefnum áfram hér á ferðum mínum um Spán, dagarnir bara líða án þess að ég fái rönd við reist. Ég er farinn að efast mjög um dans minn með Guardiola. Því meira sem ég les um kappann því meiri efi sækir á mig.

Hallgrímur Helgason segir í ágætri grein sinni (hér) að skáldsagnapersónur verði alltaf að vilja eitthvað, þó ekki væri annað en vatnsglas, til að verða áhugaverðar og vitnar þar í rithöfundinn Kurt Vonnegut. Ef ég væri sögupersóna í skáldsögu væri ég maðurinn sem vildi svo gjarnan fá meira stuð í íslenskt bókmenntalíf. Ég er svo furðulega áhugasamur um bókmenntir og fótbolta og ólívuræktun og … En mér gæti auðvitað verið alveg sama um hvort íslenskar bókmenntir deyi út og þar með íslenskt bókmenntalíf. Eða ég ætti kannski heldur að segja að íslenskt bókmenntalíf deyi út og þar með íslenskar bókmenntir. Ég er fluttur frá landinu, hættur að gefa út bækur. Ég fylgist bara með hvernig  bókmenntalífið koðnar hægt og rólega niður. Ég ætti bara að fara að safna likes eins og aðrir og láta eins og ekkert sé. Ég ætti að verða maðurinn sem safnaði likes í bók Hallgríms

Ég segi bara eins Julian Barnes það er betra að hafa elskað og misst en aldrei að hafa elskað.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.