Í verkefni með Gísla Marteini

Ég held áfram að lesa Julian Barnes, THE ONLY STORY, hér í sólinni á Spáni. Mér finnst þetta frábær bók hjá honum. Það er gaman að sjá hversu ótrúlega stílöruggir sumir höfundar verða með aldrinum. Samt fer áhugi á höfundum oft minnkandi eftir því sem þeir eldast þótt þeir verði stundum bara áhugaverðari og beittari.

Þegar ég vaknaði í morgun (við fuglasöng) furðaði ég mig á því að mig dreymdi Gísla Martein aðra nóttina í röð. Ég þekki Gísla Martein ekki vel, ég kannast við hann og hann kannast við mig, við heilsumst á götu, stundum með handabandi. En sennilega er það vegna þess að ég dáist að honum fyrir að hafa opnað Kaffi Vest (var það annars ekki hann?) því staðurinn hefur svo sannarlega bætt lífsgæði þeirra sem búa í vesturbænum. Þar að auki hlusta ég á mjög fína útvarpsþætti hans um Tinna. En í drauminum í nótt var ég allt í einu orðinn félagi Gísla í einhverri svakalegri áætlun um uppbyggingu á menningarlífi Reykjavíkur. Ég var svo upptekin af þessu verkefni að ég missti af fluginu til Danmerkur.

 

 

dagbók

Skildu eftir svar