Grásleppuskúrar og draumalíf

Þótt ég lifi draumalífi hér á Spáni finn ég mér þó ekki næði til að hlusta á Tinna-útvarpsþættina og þátt Eiríks Guðmundssonar um Þorstein frá Hamri. Ég á þetta til góða þegar ég kem aftur heim og byrja að ganga í vinnuna með mína útvarpsþætti í eyrunum. Það er í raun ekki til betri leið til að hlusta á góða útvarpsþætti en að hafa þá í eyrunum á meðan maður gengur. Ég stend mig að því æ ofan í æ að taka langan aukakrók til að hlusta aðeins lengur.

En í stað þess að hlusta á útvarpsþætti, sem er á sinn hátt ófélagsleg iðja þegar aðrir í kring eru ekki áhugasamir um útvarpsefnið, hef ég spilað tennis á morgnana eftir morgunmat (unnið alla mína leiki yo!). Borða svo léttan hádegismat (það er svo gaman að segja léttan hádegismat mér finnst ég þá svo fínn maður). Sit ég þar á eftir aðeins í sólinni með kaffibollann minn. Svo förum við út að ganga – stundum bara ég og Sus, stundum koma Númi og Davíð líka með – og göngum upp brekkuna eða niður brekkuna.

Seinni hluti dags fer í það að lesa. Ég les tvær bækur; Julian Barnes THE ONLY STORY og svo les ég bók eftir spænskan íþróttablaðamann um Pep Guardiola. Ég er alveg að verða búinn með báðar bækurnar og þá er spurning hvað ég á að lesa næst. Ég er búinn að biðja Palla að senda mér bók sem Bjartur ætlar að gefa út í sumar, ég er svolítið forvitin um efnistök höfundar. En Palli er annað hvort á skíðum eða nennir ekki að lesa tölvupóst á helgidögum.

Á kvöldin eldum við stundum eða förum út að borða. Hér í Elviria eru veitingastaðirnir ansi slappir og nenni ekki að borða á hálflélegum veitingastöðum. Það finnst mér lítil ánægja.

Ég hef verið spurður af nokkrum lesendum Kaktusins hvað bókabúð Máls og menningar kosti – hvað þurfi að borga marga peninga fyrir búðina. Ég hef ekki hugmynd um það (ég hef ekkert vit á slíku). Og sennilega er bókabúð Máls og menningar á Laugavegi 18 ekki rétti staðurinn til að byggja upp almennilegt menningarsetur/bókabúð. Ég mundi vilja byggja slíkt hús með góðu útsýni á Ægisíðunni þar sem grásleppuskúrarnir eru.

IMG_1162
Hér skyldi endurreisn bókabúða í Reykjavik hefjast. Þetta er hinn fullkomni staður fyrir menningarhús/bókabúð. Menningarhús með útsýni.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.