Með augun lokuð og táknmál handanna

Það gerist svo sem ekki margt í lífi manns í litlu þorpi á suður-Spáni. Hér vaknar maður við fuglasögn og morgunsól á heiðum himni. Í þorpinu búa ekki margir innfæddir, flestir eru breskir eftirlaunaþegar ef mér skjátlast ekki. Til helstu tíðinda má nefna að ég klára eina bók og byrja á þeirri næstu. Nú er ég búinn með Julian Barnes og byrjaður á Patrick Modiano, DÓRA BRUDER. Svona er lífið einfalt hér í blíðunni.

Eftir morguntennisleik og sturtubað settist ég undir stýri á bílnum sem við höfum á leigu hér og svo keyrðum við af stað, öll fjögur, enn í vesturátt. Við lulluðum rólega niður úr hlíðunum í átt til strandar, eða strandvegarins sem er tvíbreiður; þ.e.a.s. tvær akreinar í hvora átt. Það má eiginlega segja að þetta sé einskonar hraðbraut meðfram ströndinni. Þegar ég beygði inn á strandveginn (inn á hægri akrein) ók ég út fyrir framan hvítan bíl sem keyrði ekki sérlega hratt, hann var líka á hægri akrein en sú vinstri var alveg auð og enginn bíll sjáanlegur þeim megin á veginum. Ég tók eftir að ökumaður hvíta bílsins blikkaði ljósunum á mig og ég eyddi nokkrum sekúndum í að túlka þessa notkun ljósanna; var hann að vara mig við að lögreglan stundaði hraðamælingar? hugsaði ég. Svo beygði hvíti bíllinn út á vinstri akrein og ók fram úr mér. Ökumaðurinn, sem var einn í bílnum, virtist órólegur við stýri því hann hallaði sér yfir farþegasætið til að reyna að ná sambandi við mig. En ég skildi ekki hvað hann vildi mér.

Skömmu síðar ók ég fram úr þessum órólega ökumanni, ég keyri alltaf frekar greitt – ekki of hratt – og þegar bílar okkur voru nánast samhliða, ég á vinstri akrein og hann á þeirri hægri, setti hann allan handlegginn út úr glugganum ökumannsmegin og gaf fingurmerki um að einhver eigi að fokka sér (þetta er alþjóðlegt merki). Síðan tók hann handlegginn inn í bíllinn til að benda á höfuðið á sjálfum sér og snúa vísifingrinum í nokkra hringi (þetta er líka alþjóðlegt merki og þýðir að einhver sé heimskur).

Við beygðum inn á bátahöfnina Puerto Banus, ég vinkaði til hvíta bílsins (það er alþjóðlegt kveðjumerki, sem líka er framkvæmt eingöngu með höndum). Í þessari höfn eru óvenju margir, stórir bátar samankomnir. Þeim sem eiga stóra báta, sem stundum eru kallaðar snekkjur, finnst gaman að safnast saman í þessari höfn, Puerto Banus. Líka þeim sem eiga fína bíla. Ég nefni nokkrar bílategundir sem teljast fínar: Maseratti, Ferrari, Rolls Royce, Bugatti, Jaguar… Eigendur þessara bílmerkja hafa komið sér saman um að hittast við þessa höfn, leggja bílnum sínum  í bílastæði og ganga svo um og skoða stóru bátana.

Við fengum okkur hádegismat í einu af hinum fjölmörgu veitingastöðum við höfnina. Við drengir fengum okkur pizzu en Sus fékk sér eitthvað hollara. Ég veit ekki hvað er að mér; núorðið finnst mér of oft veitingahúsamatur bara ekki góður. Ég fæ sjaldan góðan mat á veitingahúsum. Maður þarf eiginlega að vita fyrirfram, þegar maður kemur til borgar eða bæjar eða þorps, hvar gott veitingahús er að finna. Hvar hægt er að borða sómasamlega máltíð, í stað þess að þurfa að hræra í metnaðarlausu samsafni af lélegum matvælum á einum disk.

En við komum aftur heim um hálf fjögur. Ég sótti bókina sem ég er nýbyrjaður á, Dóra Bruder, og lagðist með hana út á sólbekk í garðinum. Ég las tvo kafla og velti fyrir mér þýðingu Sigurðar Pálssonar; af hverju hann veldi eina sögn í stað annarrar sem kannski væri eðlilegra að nota. Ég lagði bókina frá mér og lokaði augunum á meðan ég velti þessu fyrir mér. Einhvern veginn tókst mér ekki almennilega að opna augun aftur og byrja að lesa á ný, ég vildi bara liggja með lokuð augun. Tíminn leið óvenju hratt. Það var ekki fyrr en vindhviða feykti bókinni niður á jörðina að ég ákvað að taka mig saman, standa á fætur og fara að gera eitthvað af viti.

IMG_1311
Tvær skáldsögur, tveir höfundar frá tveimur mismunandi löndum. Ég kem frá Íslandi, bý í Danmörku og les bækurnar á Spáni. Elviria Hills.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.