Listi yfir hluti sem erfitt er að sjá

Það var pínulítil framandleika-tilfinning sem sótti á mig þegar ég settist fyrir framan tölvuna mína á skrifstofunni; tilfinningin var auðvitað góð. Ég hef verið mikið á ferðinni undanfarið, Ísland, Noregur, Spánn og því setið minna við skrifstofutölvuna en ég er vanur.

Það var líka töluverð viðbrigði að ganga milli staða hér í Espergærde, þar sem snjóar og hitinn við frostmark, og í átján stiga hita í hinum spænsku fjallahlíðum við Elviria. Það var því alveg við hæfi að ég hlustaði á gamlan þátt af Lestinni á göngunni til vinnu; Lestin 28. nóvember 2017 og umsjónarmaðurinn er þreyttur á myrkrinu. Í myrkrinu er margt hulið auganu.

Hér er listi yfir hluti sem erfitt er að sjá í björtu:

 1. Þegar ég horfi fram í tímann sé ég ekki neitt; ég vil ekki segja að ég sjái svart því það gæti verið rangtúlkað. Þegar ég horfi til baka í tímann sé ég hins vegar bak við augun matsal Menntaskólans við Hamrahlíð. Stúlka gengur hröðum skrefum framhjá mér og styður sig við hækjur. Hún er með sólgleraugu. Hún er bæði hölt og með augnsjúkdóm. Fyrir aftan mig situr ungur maður uppi á borði með stuttan hártopp. Það vill svo til að ég hef séð hann nýlega (í marsmánuði þessa árs) og það er eins og hártoppurinn hafi aldrei vaxið.
 2. Þegar ég horfi upp í himinninn sé ég ekki hvort yfir mér séu gervihnettir. Ég sé stjörnurnar. Ef ég dreg línu milli tveggja stjarna í bogamanninum veit ég að halli línunnar 51,7 gráður.
 3. Þegar ég horfi á grasflötin fyrir aftan húsið mitt sé ég ekki að undir grasinu vex mosi og undir mosanum liggja hvít egg sniglanna.
 4. Þegar ég horfi á nýbruggaða bjórinn okkar sé ég ekki í gegnum flöskuglerið hversu tær hann er.
 5. Þegar ég horfi á ökumanninn slá fast í stýrið á bílnum sínum með báðum höndum (sem voru held ég viðbrögð við því að hann komst ekki áfram þegar hann vildi) sé ég ekki hvort í augunum sé gamansamt blik.
 6. Þegar ljósið er af skornum skammti sé ég ekki millifyrirsagnir í dagblaði, sama hversu krassandi þær eru.
 7. Þegar ég horfi á nýja afgreiðslumanninn í pósthúsinu sé ég ekki hvort hann sé ánægður með nýja starfið sitt. Hann er með rauða derhúfu og það fellur skuggi yfir augun. Kannski er það þess vegna á ég svo erfitt með að meta starfsgleðina hjá honum.
 8. Þegar ég horfi í norðvestur frá húsinu mínu sé ég ekki Ísland þótt ég horfi í rétta átt. Ég sé heldur ekki þá sem opna dyr og ganga annars hugar út úr húsi í Reykjavík.
 9. Þegar ég horfi á litla ólífutréð mitt sé ég ekki hvort á laufblöðunum skríði lús. En það er ekki lúsin sem ég hef áhyggjur af heldur frostið.
 10. Þegar ég horfi niður í holurnar í malbikinu sé ég ekki niður á botn.
 11. Þegar ég horfi á ljóðskáldið mala einhverja vitleysu um nýjustu ljóðabókina sína sé ég ekki hvort hann sé að meina það sem hann segi. En ég hugsa að það geti varla verið.
 12. Þegar ég horfi á manninn banka á hjarta sitt til að gefa til kynna að hann tali frá hjartanu, sé ég ekki hvort það sé satt. Ég efast og er undrandi á því því ég er ekki tortrygginn að eðlisfari.
 13. Þegar ég sé bókstafinn E. sem tákn um millinafn velti því fyrir mér hvort það eigi að standa fyrir Emil eða Eva.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.