Blikkkóngarnir

Sumum er svo eðlilegt að koma fram og segja frá að það er aðdáunarvert. Halldór Guðmundsson fyrrum útgáfustjóri er einn þessara manna. Ég segi þetta hér því ég hlustaði nefnilega á hann í samtali við Ævar Kjartansson og Pétur Gunnarsson í útvarpsþætti þeirra félaga. Fluginu frá Malaga til Kaupmannahafnar seinkaði og ég átti að vera einn af farþegunum þannig að í þessum langa biðtíma arkaði ég um flugstöðvarbygginguna (fitBit-skref) á meðan ég hlustaði á  útvarpsþáttinn i hlaðvarpi RÚV.  Í þessari bið hlustaði ég satt að segja á þrjá útvarpsþætti (Tinna-þátt í umsjón Gísla Marteins, Lestarþátt í umsjón Eiríks og Önnu Gyðu) og gekk samtímis um það bil 10.000 skref (sorry Kaldal).

En aftur að útvarpsþættinum með Halldóri sem fjallaði að mestu um gömlu skáldin Gunnar Gunnarsson, Halldór Laxness, Jóhann Sigurjónsson, Kristmann Guðmundsson og fleiri Íslendinga sem höfðu reynt að slá í gegn með því að skrifa á útlensku. Halldór var í essinu sínu í þessum þætti og ég hafði mjög gaman af samtali þessara þriggja höfðingja.

Þegar ég skrifa þetta reikar hugur minn til Magnusar Mills, breska höfundarins, sem ég kynntist nokkuð vel þegar hann kom á bókmenntahátíðina í Reykjavík fyrir 18 árum (þetta man ég). Hann skrifaði bók sem heitir Three to see the King sem ég þýddi á mettíma sumarið 1999. Bókin fékk íslenska heitið Blikkkóngarnir. Þegar ég fann þennan íslenska titil hafði ég svo gaman af k-unum þremur í röð í orðinu blikkkóngar. Gleði mín yfir þessum þremur k-um var auðvitað í engu samræmi við tilefnið. Ég get orðið alltof glaður yfir smámunum, næstum neyðarlega glaður. Afsakið.

Á meðan ég skrifa þetta hlusta ég á upptöku með Nick Cave og verð aftur neyðarlega glaður yfir stuttu, óvæntu hiki í slagverksstúf sem er að finna í einu af þeim lögum sem flutt var í útvarpsstöð KRCW í Los Angeles árið 2013.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.