Far eftir hné í baki

Ég vaknaði örugglega sextíu sinnum í nótt eða einu sinni á tíu mínútna fresti. Fótboltaæfingin í gærkvöldi gekk ferlega illa. Strax í upphafi æfingar fór ég öfugt inn í tæklingu og  fékk hné inn í bakið á mér og eftir það gat ég varla hlaupið og nóttin var sem sagt hörmuleg með djúpt far eftir hné inn í bakinu á mér. Eftir frammistöðuna á æfingunni í gær á ég ekki skilið að vera valinn í liðið fyrir leikinn á móti Helsingør í næstu viku.

Ég varð að segja pass á jóga í morgun, ég gat varla lyft hægri fæti, svo niðurstaða mín var að ekki væri bætandi á ömurleika minn og ég boðaði forföll. Ég segi bara eins og Eiríkur: Þetta er búið.

Fundurinn inn í Kaupmannahöfn í gær gekk þó vel. Gamall félagi minn vildi hitta mig og ég hélt að hann ætti eitthvað sérstakt erindi. En það var ekki, erindið var ekkert. Hann vildi bara drekka kaffi með mér og fá stöðuna, ég var glaður að hitta hann. Góðvilji og velgjörðarsemi.

Eftir ferðalög síðustu vikna er ég ekki alveg kominn aftur í takt við þýðingarstarfið. Ef mæld væru tímalaun fyrir þessa þýðingu sem ég vinn að nú væru þau mjög léleg. Lélegri en laun ríkisstarfsmanns í hálfu starfi. Bæði er textinn ekki beint auðveldur, eiginlega bara strembinn; setningarnar kílómetralangar og svo er ég sem sagt ekki búinn að finna taktinn. Í dag set ég tónlistina á fullt, drekk einn kúbikmetra af kaffi á sekúndu og stend ekki upp fyrir en marki dagsins er náð. (Ég veit heldur ekki hvort ég geti staðið upp með þetta hné inni í bakinu á mér.) Áts.

dagbók

Skildu eftir svar