Með eilífan skæting

Ég ákvað að byrja morguninn á langri morgungöngu, út á milli akranna sem eru hér rétt fyrir utan bæinn, í stað þess að setjast strax við dagbókarskrif eins og ég geri flesta daga; þ.e. skrifa snemma dags.  Þessi ganga tekur mig um það bil klukkutíma og ég mætti fáum svo ég hafði engan að tala við nema sjálfan mig, sem í sjálfu sér er hin besta skemmtun. Yo!

Mér varð hugsað til fólks sem alltaf svarar með skætingi, eða kaldhæðni. Er heilan vinnudag með skæting. Slíkt fólk hef ég hitt á vegi mínum og ég fæ alltaf sömu tilfinningu gagnvart þessum manneskjum; að það sitji óánægt og einmana heima hjá sér á kvöldin, gráti nær. Svo kemur það út á meðal fólks næsta dag og það byrjar sama leikinn: Skætingur, skætingur, jafnvel gagnvart fólki sem því er vinveitt. Slíkur eilífðarskætingur gefur á vissan hátt ákveðin völd því enginn nennir að sitja undir kaldhæðnisskætingnum og reynir því að halda friðinn… en mitt í þessum þönkum sé ég yfir mér fuglahóp, trönur, sem fljúga í oddaflugi í austurátt. Þetta var örugglega 100 fugla flug. Stórfenglegt. Ég staldraði við og fylgdist með þessu áhrifamikla flugi fuglanna í stundarkorn og gekk svo áfram. Framundan stóð gömul kona og mændi upp í himininn á þetta sama fallega ferðalag fuglanna.

„Er þetta ekki fallegt,“ spurði hún mig þegar ég nálgaðist hana.
„Jú, þetta er mjög falleg sýn,“ sagði ég.
„Ég held að trönurnar – þetta eru trönur – séu á leið til Svíþjóðar.“
„Já,“ sagði ég. „Ætli það ekki.“
„Hvaðan ætli þær komi?“ spurði konan hugsi.
Ég svaraði ekki spurningunni því ég hafði ekki hugmynd hvaðan þessi fuglahópur kom. Ég er ekki svo vel að mér í fuglafræðum.
„Þetta er svo fallegt,“ bætti konan við. „Ég er fegin að hafa séð þetta áður en ég dey.“

Já, það er alveg rétt hjá þessari góðu, gömlu konu, að það er eins gott að vara vakandi fyrir því fagra og góða áður en maður deyr.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.