Kurteisi og respect.

Það er vor. Þú sem ert á himnum.
Loksins.
Og í tilefni af þessum fagra vormánudegi gekk ég óvenju hægt í vinnuna, eftir sömu götum og venjulega, mætti sama fólki og venjulega (veifaði til Johanns fótboltafélaga míns sem kom hjólandi með börnum sínum á leið í skóla, forðaðist konuna með hundinn og hló að Line sem hafði víst beðið mig um að vera vinur sinn á facebook og ég hafði ekki svarað.) Ég hafði meira að segja útvarpsþáttinn Lestina í eyrunum svo ekkert væri nú öðruvísi en vanalega. Og viti menn! Það var gott efni í Lestinni. Ég hlustaði á ansi vel saminn pistil Atla Bollasonar um tónlistargagnrýni. Hann virkar skynsamur maður, Atli þessi Bollason, sem ég held að hafi verið með dóttur minni í skóla. Þessir ungu menn sem ég tek eftir í útvarpi: Halldór Armand, Atli Bollason og Bergur Ebbi, sem ég held að allir séu á svipuðu reki, eru að mínu mati bæði áheyrilegir, áhugaverðir og skarpir.

Og svo var líka fjallað um mannasiði í Lestinni, uppáhaldsefni mitt. Kurteisi. Það er sennilega mikilvægasta framlag mitt til uppeldis barna minna. Öll fimm hafa fengið að hlusta á sömu ræðuna hjá mér um mikilvægi þess að vera kurteis og umgangast fólk af virðingu. Respect eins og litlu börnin mín segja. Og mér finnst börnin mín kurteis. Þau kunna sig.

Ég lét ekki verða af því í gær að gera ekkert. Sunnudagur yfir engu, nei. Sennilega á það ekkert sérlega vel við mig að hanga. Því arkaði ég af stað og gekk út á milli akranna, niður að sjó og virti Svíþjóð fyrir mér, líka eyjuna Hveðn (sem liggur hér fyrir utan), kíkti á nýja fiskibát vinar míns Jespers sem hann hefur nefnt „Harðfiskur“. Þetta var tveggja tíma ferðalag

Eftir þennan langa göngutúr fór ég að berjast við mosa í grasblettinum heima hjá mér. Mér finnst mosi fallegur, en grasblettur án grass er kannski ekki nógu fallegt svo ég fékk lánaða einhverja vél hjá Lars nágranna mínum sem rífur upp mosa. Ég var nánast allan daginn í mosabaráttu.

Í gærkvöldi barðist ég svo við annað viðfangsefni; að skrifa litla grein sem ég skulda og nú er ég búin með hana. Toppgrein, yo!

Mánudagur og nú held ég áfram og reyni að gera eitthvað gagn.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.