Enn einn daginn heldur samtalið við sjálfan mig áfram. Nú hefur tölvupósturinn minn ekki verið í lagi í næstum sólarhring svo ég keyri bara áfram með mitt eintal. Enginn samtöl í tölvupósti þessar stundirnar. Mér varð hugsað til þess að til að geta skrifað um fólk sem er til í veruleikanum, eins og börnin mín, foreldra mína, vini og fjendur (ég á bara einn, kannski eru þeir orðnir tveir núna) bræður og systur, um þá sem maður rekst á, verður maður að gera þetta fólk að skálduðum persónum að hluta til hér á síðunum. Það er eina leiðin til að blása lífi í fólk á prenti. Þess vegna eru allir, og þar á meðal ég sjálfur, skáldað fólk sem fær skálduð orð í munninn á sér, hreyfir sig og dansar á skáldaðan hátt og gerir skáldaða hluti. Ég er ekki að tala um að ég ljúgi, finni upp, alls ekki, ég blæs bara lífi í fólk, samtöl og atburði sem eiga sér stað.
Einu sinni fékk ég bréf frá einum sem gaf ekki upp nafn sitt en hafði lesið Kaktusinn. Þessi lesandi skammaði mig fyrir að skrifa um fólk sem ég hitti út í bæ. En ég gat huggað þennan lesanda. Þótt ég hefði skrifað um raunverulega atburði, setti ég bæði bæði fólkið sem ég skrifaði um og aðstæðurnar sem við vorum í, í þannig búning að enginn gat orðið fyrir óþægindum af þessum skrifum.
Á eftir fer ég með lestinni, ég á hádegisfund með Jóhannesi Riis inni í Kaupmannahöfn. Það versta er að hann hefur valið veitingastað þar sem venjulega er svo vondur hljómburður, svo mikið bergmál og læti að það er stundum erfitt að heyra hvað hann segir. Jóhannesi, þeim góða manni, liggur nefnilega lágt rómur.
Nú hefur Jóhannes verið svo lengi bókmenntaforstjóri (litterær direktør) Gyldendal að menn vænta að hann segi starfi sínu brátt lausu þar sem hann er kominn á eftirlaunaaldur. Hann á þó ekki eftir að ræða það í dag, um það talar maður ekki. Hann heldur alltaf spilunum þétt að sér. Öðruvísi en ég með mínum galgopahætti og með stríðnispúkann inni í mér.
Þessa dagana stúdera ég Linn Ullmann. Ég heyrði að bókin hennar HIN ÓRÓLEGU hafi komið út á íslensku í vikunni og það þóttu mér svo góð tíðindi að ég lagðist í að lesa um Linn og hennar tilgang til bókmenntanna. Allir sem enn hafa gaman af að lesa góðar bókmenntir ættu að lesa HIN ÓRÓLEGU. Það er stórkostleg reynsla.