Tvífarinn og hádegisfundurinn í Kaupmannahöfn

Í hádeginu gær var fundur með Johannesi Riis á dagskrá inni í Kaupmannahöfn. Ég kann vel við lestarferðirnar héðan frá lestarstöðinni í Espergærde til Kaupmannahafnar. Að ferðast í lest er þægilegt. Við Sus komum tímanlega til fundarins með Jóhannesi á veitingahúsinu með slæma hljóðburðinum og eins og venjulega var þar margt um manninn. Satt að segja held ég að ég hafi séð íslending á meðal gesta. Ef þetta var ekki ungskáldið Sverrir Norland sem sat út í horni með síðhærðum félaga sínum þá var þar á ferðinni tvífari hans. Ég þekki ekki Sverri en ég hef lesið svolítið af verkum hans svo ég var nú ekki alveg viss hvort þessi maður með síða, rauða hárið væri ungskáldið eða ekki. Ég fylgdist með varahreyfingum félaga hans (Sverrir (eða tvífari hans) sneri vanganum í mig svo ég gat ekki lesið varahreyfingar hans) til að sjá hvaða tungumál þessir ungu menn töluðu. Ég gat ekki séð betur en varirnar mynduðu dönsk orð. Svo ég fór að efast um að þessi ungi rauðskalli væri íslenska ungskáldið.

En tíminn leið og snyrtimennið Jóhannes lét bíða eftir sér og það er ólíkt þessum dannaða manni. Við Sus kíktum í síma okkar til að sjá hvernig samskiptin í kringum veitingahúsaferðina höfðu þróast og það fór ekki á milli mála. Jóhannes hafði lagt til að við hittumst á Schønemann klukkan 12:15 þann 10. apríl. En Jóhannes kom ekki. Hann svaraði ekki síma og var gersamlega horfinn af sviðinu.

Þessa dagana er bókamessan í London í fullum gangi og ekki ósennilegt að Jóhannes sitji þar á fundum.

Í gær var ég spurður af áhugasömum Kaktuslesanda hvort Johannes hefði boðið mér starf sitt sem bókmenntaforstjóri Gyldendals. Svarið er: Ekki enn, þar sem þetta klúður var í hádegisfundinum. Bíðum næsta fundar. Yo!

ps. Fannst kominn tími til að taka mynd af skrifstofubyggingunni þegar ég sá hvað sólin skein fallega á húsið.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.