Tvær hugmyndir: Bóksala, betting.

Ég var svo upprifinn í morgun eftir að hafa lesið stórskemmtilega grein um Walden á leið minni til vinnu. Ég er sjálfur ekki mikið fyrir það að vera með nefið grafið niður í símann þegar ég er úti að ganga en greinin um skógarbúann Walden fangaði  mig svo að ég gat bara ekki rifið mitt stóra nef upp úr símanum. Greinin vakti bjartsýni inni í mér þannig að mér fannst ég fær í flestan sjó. Mig langar til að eitthvað nýtt gerist, eitthvað óvænt, einhver komi með stórkostlegt útspil, bara eitthvað gífurlega spennandi.

Það er svo sem nóg í pípunum hér. Gísli verktaki er að byrja að grafa fyrir húsgrunni í Hvalfjarðarasveit fyrir okkur í dag eða morgun, verkfræðingurinn er búinn að reikna burðarþol og teikna lagnir. Allt að fæðast í Hvalfirðinum.

Ég fékk heimsókn frá tveimur mönnum í gær. Tilviljun að þeir komu sama dag. Ég þekki mennina lauslega, hef átt spjall við þá í gegnum árin en í gær vildi svo til að báðir höfðu boðað komu sína (Annar heitir Casper og hinn heitir Jesper, nú vantar bara Jónatan.) Annar var með viðskiptahugmynd í bókabransanum, ágæt hugmynd en snerist um að græða peninga á bókum. Það finnst mér ekkert sérlega spennandi nú til dags, ef maður hefur áhuga á að græða peninga þá er bókabransinn ekki rétti staðurinn. Maður er ekki í bókabransanum til að græða peninga, heldur til að fá hjartað til að slá örar og dæla heitara blóði. Ég tók manninum auðvitað vel og spjallaði um hugmynd hans og kom með tillögur að nýrri útfærslu sem ég taldi betri. En ég hef ekki áhuga á að vera með.

Jesper, sem kom síðdegis í gær, er með aðra hugmynd sem hann vildi ræða við mig. Hann er áhugamaður um fótbolta og fótboltagetraunir (1×2, betting). Við höfðum einu  sinni á spjalli okkar talað um fótboltagetraunarforrit og ég hafði sagt honum frá mínu gamla forriti sem ég hafði dundað mér við að skrifa fyrir mörgum árum. Þess vegna kom hann. Hann er líka tölvugaur og hann er búinn að þróa stórgóða hugmynd um viðskipti innan fótbolta og betting-geirans. Mér fannst gaman að bera saman bóksöluhugmyndina og þessa betting-hugmynd. Jesper á eftir að verða moldríkur á þessu framtaki sínu. Það er engin spurning. Það vill svo til að meiri peningar eru í betting og fótbolta en í bókum.  En ég sagði honum að hann ætti að gera þetta einn, hugmyndin væri frábær og hann ætti ekki að flækja hana með að blanda fleirum inn í málið. Bara af stað.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.