Að pissa í klósett, að pissa í tjörn

Til eru tvennskonar gerðir karlmanna; þeir sem pissa með látum mitt í klósettskálina og hinir sem pissa hljóðlega út í kantinn til að vekja ekki á sér athygli.  Þetta hugsaði ég meðan ég beið þess að tölvan mín ræsti í morgun; á mínum jógamorgni. Það er svo sem enginn sem hefur pissað í nágreni við mig í dag eða síðustu daga þetta kom bara óvænt upp í kollinn á mér.

Í kjölfarið kom þetta: Gætið þess að enginn gjaldi neinum illt með illu, keppið ávallt eftir hinu góða, bæði hvert við annað og við alla aðra. Svo nokkuð getur komið fyrirvaralaust upp í hausinn á mér. Oft sækja á mig svona gamlar biblíutilvitnanir (ég er nú einu sinni prestssonur), sálmar og gömul íslensk sönglög. Í gær, á leið til vinnu, söng ég Sofðu unga ástin mín (öll erindin) í lágum hljóðum á meðan ég gekk eftir Lindevej á leið til vinnu. Furðulegustu hlutir geta sótt á mig.

Í síðustu viku gat ég varla sofið fyrir áhyggjum af einum af vinum mínum sem býr á Íslandi og ég hef ekki hitt í nokkra mánuði. Hann sótti svo á huga minn að það var stórundarlegt. Ég neyddist til að skrifa honum til að heyra hvort hann væri í lagi.

Svona er hugurinn. Eða svona leikur minn hugur mig.

Walden-pond er náttúruperla sem er orðinn fræg í bókmenntunum vegna bókar Henry David Thoreau um líf sitt í skóginum við Walden. Bókin hefur dregið þangað þúsundir ferðamanna. Í morgun las ég að nú deyja fiskarnir í vatninu vegna fosfórmengunnar. Og mengunin starfa af því að hinir bókmenntasinnuðu gestir Walden pissa í Walden-pond  þegar þeir taka sundsprett í vatninu. Þetta var bókmenntamoli. Yo!

dagbók

Skildu eftir svar