Rannsóknarblaðamaðurinn að störfum

Þótt tónlist skipi einstaklega háan sess í lífi mínu er ómögulegt fyrir mig að hugsa einbeitta hugsun ef ég hef kveikt á músik. Og enn verra er það með talað mál, ég get bara ekki einbeitt mér ef það eru hljóð í kringum mig. Ég þarf þögn ef ég á að einbeita mér að einhverju, algera þögn. Ég hef því slökkt á Chet á meðan ég skrifa dagbók dagsins.

Ég las ágætt viðtal við Pamelu Paul ritstjóra The New York Times Book Review um daginn. Eins og ég hef alltaf vitað bendir hún á mikilvægi útgáfu vandraða barnabóka. Ef bókaútgefendur vilja ala upp lesendur framtíðarinnar verða þeir að átta sig á mikilvægi bóka fyrir börn og gefa út barnabækur sem vekja áhuga barna. Ef barnabók mistekst að vekja áhugann er ekki víst að viðkomandi gerist nokkurn tíma lesandi. Hugsa sér hvað Enid Blyton gerði margt fyrir mína kynslóð og Harry Potter fyrir kynslóð barna minna.

Mér tókst ekki að ná settum markmiðum í gær, verkefni mín taka oft lengri tíma en ég áætla í þau.  En í dag þarf ég að fara í það sem kallast móttaka inn í Kaupmannahöfn. Lene Juul, forstjóri Politikens forlag, á afmæli og býður okkur að fagna áfanganum með sér. Það er ekki annað en kurteisi að mæta, eftir öll okkar áköfu samtöl sem við áttum þegar við reyndum að ná samningum um kaup hennar á forlaginu okkar  síðasta sumar.

Í gær þurfti ég að skrifa stutta grein fyrir vefmiðil. Það hefði ekki átt að taka mig nema hálftíma en svo fór ég í hlutverk blaðamannsins mér til skemmtunar. Hafði samband við fólk á Íslandi, Englandi, Frakklandi og Ítalíu til að fá nauðsynlegar upplýsingar. Ég hefði eiginlega átt að kveikja mér sígarettu og bretta upp ermarnar á hvítri, sveittri skyrtu til að vera ekta rannsóknarblaðamaður. Þessi vitleysa varð til þess að tíminn rann frá mér.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.