„Hó, Zlatan!“

„Ólæknandi sundurlyndi. Það er meinsemd mannsins,“ sagði einhver vitur maður. Þessi setning kom upp í hugann þegar ég horfði á fréttirnar í sjónvarpinu í gær. Sennilega eru ár og mánuðir síðan ég hef séð sjónvarpsfréttir. Ekki gladdi það mig sérstaklega að verða vitni af því sem helst var í tíufréttum.

Í gær tókum við Sus lestina  inn í Kaupmannahöfn á samkomu, (móttöku heitir þessi tegund mannamóta víst). Politikens forlag fagnaði því að Lene Juul, forstjóri forlagsins,  varð 50 ára. Að sumu leyti minnir bókabransinn í Danmörku á bókabransann á Íslandi. Maður hittir alltaf sama litla hópinn af fólki, forleggjara hinna forlaganna, menningarblaðamennina, ritstjórana hjá hinum forlögunum, innkaupastjóra bóka hjá bókabúðakeðjunum, umboðsmennina, bókaklúbbsfólkið og rithöfundana. Það var auðvitað gaman að tala við allt þetta góða fólk. Ég þarf að útskýra aftur og aftur hvað ég sé eiginlega að gera eftir að forlagið okkar var selt. „Hvernig færðu tímann til að líða,“ spyr maður á dönsku og ég svara á minni dönsku að ég eigi sko ekki í vandræðum með að láta tímann líða, þvert á móti skortir mig tíma. Fólk var einlæglega áhugasamt um velferð mína og þau verkefni sem ég hef kastað mér út í.

En það sem gladdi mig mest var að Lene afmælisbarnið kom arkandi til mín – hún er ekkert að pakka hlutunum inn þegar hún talar með sinni rámu rödd. „Hó, Zlatan!“ [Hún kallar mig Zlatan.)  „Hó, Zlatan!“ endurtók hún á meðan hún faðmaði mig svo fast að ég hélt að hún ætlaði að kreista lungun úr mér. „Ég er svo gífurlega ánægð með kaupin á Hr. Ferdinand! Þetta er fullkomið fyrir okkur!“ Ég fann hvað mig létti, því ég hef haft áhyggjur á að þau hjá Politiken hefðu ekki geta nýtt sér það sem þau keyptu. En Lene var ánægð með að hafa keypt Hr. Ferdinand og það gerði mig mjög glaðan.

Þegar ég hugsaði um þessar áhyggjur mínar, óttann við að Lene teldi sig hafa keypt köttinn í sekknum, rifjaði ég upp sölu mína á Bjarti fyrir tíu árum. Ég var aldrei í vafa, ekki í eina sekúndu, að Pétur Már hefði gert góð kaup í Bjarti. Ég hafði ekki hinar minnstu áhyggjur á að fjárfesting Péturs mundi ekki borga sig fyrir hann. Pétur fékk toppforlag með kaupum sínum á Bjarti. Yo!

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.