Þegar ég kom heim úr löngum leiðangri í gær beið mín sending í póstinum. Þetta var ekki óvænt sending því ég hafði sjálfur beðið um og greitt fyrir þennan pakka. Það var ekki síður ánægjulegt að opna póstkassann og sjá glitta í brúnan umbúðapappírinn og vega í lófanum þungt í góssið sem leyndist undir umbúðunum. Það eru ár og dagar síðan ég hafði hugsað mér að eignast Walden – Lífið í skóginum og ég lét þó fyrst í síðustu viku verða af því að hafa samband við íslenska forlagið, Dimmu, og fá það góða fólk þar til að senda mér bókina hingað til Danmerkur. (Ég fékk meira að segja afslátt af bókinni sem ég átti alls ekki skilið. Forleggjaraafsláttur var þetta niðursetta verð kallað en ég er enginn forleggjari lengur svo lága verðið sem útgáfan seldi mér bókina á var byggt á röngum forsendum.)

Ég byrjaði að lesa bókina í gærkvöldi þegar farið var að skyggja (ég er með margar bækur í gangi þessa dagana!). Gyrðir Elíasson ritar inngang eins og honum einum er lagið. Gyrðir hefur sérstakan tón í skrifum sínum sem bæði er þægilegur og tilgerðarlaus og það var ánægjulegt að hreiðra um sig í mínum góða lesstól undir leslampanum og sökkva mér niður í þessi fínu formálsorð.
Ég var sem sagt í löngum leiðangri í gær (á bílnum mínum) og nú var ég ekki í hlutverki uppgjafa útgefanda heldur sem nýbakaður byggingaframkvæmdamaður! Yo! Ég var á fundi með gluggagerðarmeistara sem kynnti mig fyrir möguleikum og nýjungum í gluggaframleiðslu, sem var bæði fróðlegt og gagnlegt. En ég þurfti að keyra alla leið til Herlev til að eiga þennan fund.
Annars er ég á hvínandi flugi þessa dagana. Þótt ég hefði fengið fréttir í gær um að þýðingarvinna síðustu vikna væri kannski til einskis og nýtt þýðingarverkefni sett á borðið gekk vel með annað sýsl og ég var kampakátur þegar ég slökkti á tölvunni í gær og er fullur eftirvæntingar og bjartsýni að halda áfram í dag.
P.s Pep ætlar að halda sumarfrí sitt í Pescara í ár og því verður stutt á milli okkar; ég verð í Vico del Gargano í sumar.
pps. Furðulegt að halda að Facebook gagnist lýðræðinu svo mjög. Nú fá alls konar fáráðlingar, ofbeldismenn, dónar og fólk með eintóman skæting takmarkalausan aðgang að ræðustólnum án þess að menn hugsa hvað það í raun þýðir. Mitt í allri þessari lýðræðisgleði sem menn fagna á félagsmiðlum er horft framhjá því að nú fá þær raddir sem maður kærir sig alls ekki um að heyra í nútíma lýðræðissamfélagi aukið vægi og endurnýjaðan styrk. Framgangur populismans er engin tilviljun og dómstólar götunnar hafa aldrei haft meira vald.