Hettuklæddir byssumenn með hvítar grímur

Í hléinu á tónleikunum sem ég var á í gærkvöldi í hina stórglæsilega óperuhúsi í Kaupmannahöfn varð mér litið á símann minn og við mér blöstu skilaboð sem settu mig aðeins úr jafnvægi. Tónleikasalurinn hafði verið gersamlega loftlaus og hitastigið þar inni var rétt við 100 gráður. Við, það er að segja ég og fylgdarmenn mínir, vorum við það að skrælna í kverkunum eins og eftir dagslanga eyðimerkurgöngu án drykkjarfanga. Vatnið hafði því algeran forgang á allt annað þegar ég staulaðist út úr tónleikasalnum í átt að barnum. En það hafði þegar myndast löng röð því sennilega voru fleiri sem höfðu þörf fyrir hressingu. Ég veiddi því upp farsímann úr jakkavasanum eins og nútímafólk gerir þegar það hefur dauða stund. Ég hafði tekið eftir því að síminn hafði titraði alloft  við lærið á mér undir tónlistarflutninginum, sem er merki sem símtækið gefur þegar einhver sendir mér annað hvort tölvupóst eða sms. Síminn sem ég eignaðist fyrir nokkru er frekar góður, hann er búinn allskyns nýjungum; hefur meðal annars innbyggða myndavél og hægt er að hafa hann á hljóðlausri stillingu óski maður þess að síminn trufli ekki með hringingu sinni.

Á skjánum á þessum framúrstefnulega síma sá ég fleiri en einn og fleiri en tveir af vinum mínum og kunningjum höfðu sent mér skilaboð þær 90 mínútur sem ég hafði hlustað á hljóðfæraleik og söng.

„Kaktusinn hefur verið hakkaður!“ var fyrsta yfirskriftin sem ég rak augun í.
„Skemmdarverk?“ var sú næsta.
„Hver vill þig feigan?“

Þetta voru hræðilegar fyrirsagnir og ég var alls ekki rólegur. Ég reyndi að koma inn á Kaktusinn (veffangið er http://www.kaktusinn.is)  og við mér blasti ekki það sem venjulega mætir mér þegar ég kem inn á dagbókarsíðuna heldur mynd af 4 vopnuðum mönnum í svörtum hettupeysum með hvítar grímur.

Nú varð ég undrandi. Í skráði mig inn til að komast á stjórnborðið og ég sá mér til mikillar skelfingar að allt mitt efni var horfið.  846 færslur voru horfnar og það eina sem sat inni á Kaktusnum var myndin af byssumönnunum fjórum. Ég fjarlægði hana.

Satt að segja varð ég töluvert miður mín en ég vildi ekki spilla tónleikaför vina minna og sagði því ekkert heldur keypt bæði vatn og kók fyrir allan hópinn. Við svolgruðum í okkur vökvanum áður en við tókum næstu törn inn í tónleikasalnum. Eiginlega fóru tónleikarnir eftir hlé fyrir ofan garð og neðan.

Þegar ég kom heim tókst mér á ótrúlegan hátt og eftir langa mæðu að ná öllu mínu efni saman með dyggri aðstoð tölvumanna í útlöndum. Lykilorði hefur verið breytt. Nú er það: 6syys0=1!!&sgsG0O. Enginn getur hakkað sig í gegnum þetta lykilorð.

Það var komið fram undir miðja nótt þegar ég hafði lokið björgunarstörfum og var að búa mig undir að koma mér í bælið. Ég var hreint út sagt örmagna. En um það bil sem ég var að slökkva á tölvunni kom mail frá konu sem kallaði sig Önnu. Mér datt ekki annað í hug en að opna tölvupóstinn: Enginn texti fylgdi póstinum en á skjánum birtist aftur sama mynd og hafði prýtt Kaktusinn fyrr um kvöldið. Hettuklæddir byssumenn með hvítar grímur.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.