The Weeping Song. Ég er kominn með þetta Cave-lag á heilann og spila það núna í þremur mismunandi útgáfum í slaufu. Ég er í þessu stuði í dag. Það þýðir ekki að ég er að því kominn að gráta eða langi til að gráta. Þvert á móti. Ég er bara svo glaður yfir að svona fínt lag sé til í heiminum og hafi möguleika að spila það í þremur útgáfum: Oh father tell me, are you weeping?/ Your face it seems wet to touch, syngur Cave núna.
Ég sá pabbi minn aðeins einu sinni fella tár, það var þegar hann sagði mér að afi, pabbi hans, væri dáinn. Annars hafði hann góða stjórn á tilfinningum sínum. Hann skammaði mig til dæmis aldrei, ég hef aldrei verið skammaður af foreldrum mínum. En það getur svo sem vel verið að hann hafi grátið yfir mér, að ég hafi valdið honum vonbrigðum. Ég sá aldrei þau tár.
Ég hlustaði á pistil Halldórs Armand í útvarpsþættinum Lestinni. Hann er hreint fyrirtaks pistlahöfundur þessi ungi maður. Hann er áheyrilegur, oft áhugaverður, flytur mál sitt vel og segir enga vitleysu.
Ég tapaði fótboltaleiknum á móti Vapnegård FC í gær 4-2 en átti samt ágætan leik. Nú hefur liðið mitt, sem alltaf hefur spilað um efstu sætin í deildinni, tapað tveimur fyrstu leikjum tímabilsins og er neðst. Já, við höfum tapað fyrstu tveimur leikjunum og þjálfarinn var aldeilis óánægður með leikinn í gær.
Þegar við vorum á leið í sturtu – það var þrúgandi stemmning – sat þjálfarinn úti í horni undir fatahönkum fyrir börn og einn af leikmönnunum spurði hvort hann ætlaði að nota þessa lágu hanka til að hengja sig? Hankarnir í hinu horninu voru heppilegri þeir væru hærri. Þjálfarinn svaraði ekki og stökk ekki bros á vör. Hann er suðurlandabúi og ég veit að það sýður á honum á suðurevrópskan hátt. Svo ég beið eftir að sprengingin kæmi.
„Bíðið, ekki fara í sturtu,“ sagði hann. Þögn. Allir námu staðar, flestir berrassaðir eða hálfberrassaðir á leið út í sturutklefann.
„Ég segi ekkert fyrr en þig stígið nokkur skref í áttina til mín svo ég þurfi ekki að öskra á ykkur.“ Þögn. Við leikmennirnir tókum skrefin í átt til hins þungbúna þjálfara og skýldum mestu nektinni með handklæðum.
„Hvar er spirritinn sem hefur alltaf einkennt liðið okkar. Við höfum alltaf verið svo góðir að hvetja og hjálpa hver öðrum. Nú heyri ég ekkert annað en fu*cking væl, tuð og skammir. Ef einhver á lélega sendingu heyrir maður skammir í stað þess að senda hvatningarorð til hvers annars og hrós fyrir það sem vel er gert. Með þessu áframhaldi vinnum við ekki leik.“
Svona er talað í búningsklefanum eftir leik. Ég get þó sagt mér til hróss að ég segi bara eitthvað fallegt á fótboltavellinum, bæði við samherja og mótherja. Ég er aldrei með neitt fu*king væl, hvorki á fótboltavelli né annars staðar, sama hvað hver segir. Ef einhver segir að ég sé með fu*king væl þá er það bara sagt af tómri illgirni og vegna þess að viðkomandi þekkir mig ekki.