Hin síðbúnu skrif

Ég er á Íslandi með öllu því góða sem því fylgir. Ég rakst á töluvert af fólki í dag sem stoppaði mig á götu til að heilsa upp á mig og það þykir mér bæði skemmtilegt og ánægjulegt. Því það fólk sem tekur mig tali sýnir mér allt bara góðvild og velvilja. Slíku er gott að mæta. Sérstaklega þegar manni líður stundum eins og glæpamanni hér á landi. Ég tek saman lista í lok ferðarinnar um þá sem ég hef hitt, Það er orðin venja hjá mér þegar ég er hér á landi í heimsókn.

Nú er komið kvöld og ég er fyrst núna að skrifa í dagbók mína, venjulega er það mitt fyrsta verk að morgni. Ástæðan fyrir því að ég skrifaði ekki í morgun var óyndi mitt. Mér bárust skilaboð seint í gærkvöldi sem settu mig í nokkuð uppnám og vöktu hjá mér slíka furðu að ég er enn að reyna skilja þau. Í stað þess að skrifa í morgun, enn frekar argur yfir skilboðunum, ákvað ég að láta daginn líða áður en ég settist við skriftir. Maður á víst ekki að kasta sér í gin ljónsins, það er ekki ráðlegt sama hversu manni lagnar mikið til þess. Ég hef lært það að umræða um viðkvæma hluti á alnetinu er ekki rétta leiðin til að koma skoðunum sínum á framfæri og kannski allra síst þegar maður er í uppnámi.

En dagurinn var ánægjulegur að öllu leyti. Erindi mitt á Íslandi snýst fyrst og fremst byggingu mannvirkja og koma þeim verkefnum áfram og jafnvel að stofna ný slík verkefni. Okkur miðaði vel og samkvæmt FitBit gengum við yfir 24 km í dag.

 

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.