Kominn heim, eins og maður kallar Søbækvej. Búinn að vera í Hvalfirði, Reykjavík og Keflavík í dag og svo núna kominn alla leið til Espergærde.
Ég er auðvitað nokkuð vankaður eftir þessa þeysireið í gegnum daginn. En ég komst að raun um að þrátt fyrir allar annirnar tókst mér að klára að lesa þrjár bækur á ferðalaginu. Stormfugl eftir Einar Kárason, Snjóbyl eftir Ragnar Jónasson og bók um fótboltalandsliðið eftir Þorgrím Þráinsson. Tvær af þessum bókum eru ekki enn komnar út og ég hef lofað útgefendum að segja ekki neitt um bækurnar svo ég læt það ógert. En Ragnar Jónasson las ég fyrir forlag hérna í Danmörku. Ragnar kann ýmislegt þótt mér finnist hann ekki liprasti penni í heimi. Hann hefur lært nokkur trikk af Agöthu Christie enda hefur hann þýtt fjölmargar af bókum hennar. Ég er að sumu leyti hrifinn af stemmningunni í bókinni hans Snjóbyl og ég mun fremur mæla með útgáfu bókarinnar en hitt. Bókin er örugglega yfir meðallagi í norrænum glæpasagnalitteratur.
Það er satt að segja mjög gott að koma heim. Hér er eitthvað svigrúm og einhver ró sem til dæmis er ekki á Íslandi. Annars væri ég alveg til í að verja meiri tíma á Íslandi sérstaklega vegna barna minna og barnabarna. Hópurinn minn er svo góður.
P.s Minn góði vinur Jón Karl bendir mér reglulega á að allt sem gert er orki tvímælis. Það er svo rétt. Ég er gosi, ég æði áfram, finnst gaman að stríða og ögra og vil hafa frelsi til að tala á móti straumnum. En inni í mér er sál sem fer alltof auðveldlega úr jafnvægi og ætti því ekki að leika þann leik aftur og aftur að kasta sér vísvitandi í gin ljónsins. En það geri ég. Í dag fékk ég líknandi bréf eftir deilur helgarinnar, smyrsl á mín sjálfsköpuðu mein.
