Dagur hliðartöskunnar

Það var fjölmenni á pöllunum inni í Parken í gær. Parken er þjóðarleikvangur Dana og þar hefur fótboltalandsliðið og FCK (fótboltalið Kaupmannahafnar) sinn heimavöll. Oft er Parken notaður undir stórtónleika þegar stórhljómsveitir koma í heimsókn til Danmerkur með frægð sína, þá er gott að hafa heilan fótboltavöll svo gott rými sér fyrir áheyrendur.

En í gær var völlurinn vettvangur tennisleiks. Besta tenniskona heims Carolina Wozniacki er dönsk og í gærkvöldi spilaði hún, til að sýna þjóð sinni hvað hún gæti,  við Venus Wiliams sem er númer 8 á lista yfir bestu tenniskonur heims. Þennan leik fór ég að horfa á í gær til að læra nokkur ný trix. (Þeir sem hafa áhuga á úrslitum leiksins geta sent mér mail og ég upplýsi án nokkurrar tregðu hvernig leikurinn endaði).

Lífið er aftur að færast í fastar skorður  hjá mér. Ég geng til vinnu á morgnana með mína svörtu hliðartösku sem geymir tölvu og helling af bókum sem ég held alltaf að ég þurfi á að halda. Ég hlusta á podcast á leiðinni, oftast á Lestina (eins og í morgun) eða á eitthvað annað áheyrilegt. Í morgun hlustaði ég á Atla Bollason tala um reif-tónlist. Hann veit margt um tónlist þessi ungi drengur, að minnsta kosti veit hann margt um tónlist sem ég hef aldrei hlustað á. Það var hreint ágætt að hlusta á hann; ég endurtek það sem ég hef sagt áður að hann er góður pistlahöfundur.

Þegar ég kom til vinnu settist ég við að skrifa dagbók dagsins á vef sem heitir Kaktus. Að því loknu tek ég fram þýðingarverkefni mín, skrifa bókmenntamola fyrir annan vef, eða hef samskipti við byggingarfólk, arkitekta og embættismenn sveitarstjórna sem úthluta leyfum. Svona er þetta nú einfalt og gott líf. Í kvöld er átöppunarkvöld; 32 l af bjór á flöskur.

Og ætli ég horfi ekki á fótboltaleik í kvöld, ekki kæmi mér á óvart að ég freistaðist til þess. Real Madrid vs. Bayern München.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.