„Hó, Jesper, góðan daginn.“
„Hæ, þú gast vaknað?“ Jesper gjóaði augunum til mín yfir brún sólgleraugnanna.
„Já, auðvitað.“
„Stígðu um borð, við siglum. Ég þarf að vera kominn til baka í höfn klukkan níu, eða allavega fyrir morgunmat. Það er hafnardagur í dag, ég er í hafnarstjórn og þarf að mæta og taka til hendinni. Maður verður að sýna gott fordæmi.“
Ég hoppaði niður í nýja bátinn hans Jespers sem heitir Harðfiskur og við sigldum tafarlaust af stað. Við ætluðum að leggja net.
„Við siglum upp að Ven (eyjan Hveðn) og leggjum netin þar. Þar er fullt af þorski.“ Og svo gaf Jesper í og báturinn þaut af stað. Það var sjaldgæft veður á Eyrarsundi. Blankalogn og spegilsléttur sjór undir sólbjörtum himni. Klukkan var ekki orðin sjö að morgni þegar við vorum komnir út á mitt Eyrarsund. Jesper við stýrið og ég hallaði mér upp að stýrishúsinu og horfði ofan í sjávarlöðrið. Í vasanum titraði síminn minn. Ég veiddi hann upp.
„Hvað ertu að kíkja á símann þinn. Þú átt að horfa á nátturuna, maður.“
„Síminn titraði í vasanum. Það þýðir að eitthvað mikilvægt er að gerast.“
„Hvað var það svo?“
„Sus sendi SMS. Hjörtu.“
„Nei.“
„Jú. Bara kærleikur. Endlaus hjörtu og ást. Svona er þetta allan daginn.“
„Nei. Þú lýgur svo mikið. Það er ekki orði trúandi sem þú segir.“
