Rosalega chick

„Hvað, rosalega ertu chick, ertu á leið á fund?“ spurði Lars þegar við hittumst úti á götu í morgun. Hann var með  hundspottið sitt í bandi og ég með hliðartösku yfir öxlina.
„Það getur vel verið,“ sagði ég. Ég veit ekki hvað var svona chick eins og hann kallaði útganginn á mér. Fötin sem ég fer í á morgnana eru valin af handahófi þennan morgun eins og aðra morgna. Ég fer þó ekki í síð pils, ekki er ég svo vitlaus.

Ég er óþolinmóður og fyllist stórkostlegu óþoli þegar ég hlusta á allan þann vinstripopúlisma sem vellur út úr hátölurunum þegar ég geng til vinnu með útvarpið í eyrunum. Vinstripopúlisminn er næstum enn verri en hægripopúlisminn (sem er svo hlægilega kjánalegur) því hann (sá vinstri) daðrar við manngæsku og skynsemi en byggir á sömu græðgi og sjálfhverfu.

Suma morgna vakna ég með þá tilfinningu að eitthvað magnað sé að fara að gerast. Þannig var það í morgun og sú tilfinning varð sterkari þegar ég var að starta skrifstofunni hérna á lestarstöðinni; ég hafði skrúfað upp fyrir tónlistina á meðan tölvan malaði í gang og tekið mér stöðu við hliðina á kaffivélinni. Ég fylgdist með brúnum vökvanum fylla bollann minn. Tónlistin og kaffið voru í fullkomnum takti og enn á ný laust þessari tilfinningu niður í kroppinn á mér. Eitthvað stórkostlegt er í  þann mund að gerast. Satt að segja brá mér svolítið, tilfinningin var svo sterk, og mér var litið í kringum mig til að sjá hvort einhver hefði komið inn. Hávaðinn frá tónlistinni yfirgnæfði öll hljóð. Allt með kyrrum kjörum. Fyrir utan gluggann stóð ung stúlka með sítt hár sem glitraði í sólinni og skoðaði símann sinn. En það er eitthvað að fara að gerast.

Ég las grein Jóns Karls Helgasonar í Bókaskáp Ástu S. þegar ég hafði komið mér fyrir við skrifborðið mitt. Ég hristi hausinn, bæði yfir sjálfum mér og heiminum.  Ég get ekki alveg fest fingur á  hvað fékk mig til að hrista hausinn. Þetta er nú ljóta vitleysan allt saman, hugsaði ég. Sé ég eftir því að hafa farið af stað?

tom vitleysa

Á eftir tek lestina inn í Kaupamannahöfn í dag, ég á stefnumót. Lars hafði rétt fyrir sér, ég á að mæta á fund, hádegisfund á veitingahúsi.

ps. Það er kominn maímánuður. Hvað ætli bókasafnshjónin séu að hugsa?

 

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.