Með fínstillt eyru andspænis manni á veitingahúsi

„Góðan daginn, elskan mín.“ Svona byrja dagarnir. Ég hef eiginlega ekki sofið í nótt, sem er hálf skítt þar sem ég á að spila kappleik í fótbolta í kvöld á móti Hornbæk FC. Vonandi verð ég ekki þreyttur.

Að sitja á veitingahúsi á heitum sumardegi inn í Kaupmannahöfn er ekki daglegur viðburður hjá mér. Í gær átti ég fund í hádeginu með Jóhannesi Riis, bókmenntaleiðtoga Gyldendal. Við sátum andspænis hvor öðrum út við stóran glugga sem hafði verið opnaður út á Grábræðratorg enda bæði heitt í veðri og bjart undir sólinni. Jóhannes bar sólgleraugu. Ég var gleraugnalaus enda kann ég illa við mig með sólgleraugu.

Jóhannes liggur sérlega lágt rómur svo ég þurfti að einbeita mér mjög á að heyra hvað hann sagði: „Snæi, sssummsmmm ummmsusmmsm?“
„Ha, fyrirgefðu, ég heyrði ekki hvað þú sagðir.“
„Snæi, sssummsmmm ummmsusmmsm?“
Ég hikaði. Ég gat ekki aftur hváð svo ég valdi að segja: „Nei.“ Vitandi að það voru helmingslíkur á að það væri rétta svarið. En gaf um leið merki með líkamstjáningu minni að hann mætti halda áfram að tala. Ég vonaði að ég gæti þá skilið á samhenginu hvað hann var að tala um.
„Nei?! Summm jummm sjjmmuumm,“ Jóhannes var augljóslega hissa á neitun minni svo ég hafði greinilega svarað rangt.
„Jú, ég meina jú!“ Og aftur gaf ég honum aftur merki  um að halda áfram. Ég vonaði að ég heyrði nú hvað hann væri að tala um. Ég hallaði mér yfir borðið og eins nálægt Jóhannesi og ég þorði. Ég sá að hann hörfaði aðeins.  Svona gekk samtal okkar. Ég náði þó með tímanum að fínstilla eyrun svo ég heyrði megnið af gáfulegum setningum bókmenntaforstjórans. Sennilega breytti þessi fundur ekki lífi mínu. Það eru sem betur fer ekki mörg hversdagsleg atvik sem breyta lífi manns á afgerandi hátt.

restaurant

Ég keypti bók á leiðinni heim frá bænum. Det endeløse sommer eftir Madam Nielsen, og las hana í gær. Byrjaði í lesinni. Þetta er dapurleg bók um allt það sem aldrei varð að neinu. Ég þekki Madam Nielsen, sem heitir í raun og veru Claus Beck. Hann er miðaldra karlmaður – ekkert nema skinn og bein – og gengur um í gervi konu; málar sig, klæðist kvenmannsfötum (þá á ég við síð pils og slíkt) og skrifar í orðastað konu. Claus Beck lifir list sína. Líf hans er list hans. Claus er góðvildin ein og óvenju elskuverður maður..

 

 

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.