Reiðarslagið

Undanfarna daga hef ég fylgst með hvernig smáframkvæmdum á gönguleið minni miðar áfram. Ég var lengi að átta mig á hvað úr þessu  litla róti ætlaði að verða. Í síðustu viku hófust framkvæmdirnar með því að allt í einu var komin metersdjúp hola út við gangstéttina við hús númer 19B. Næsta dag var búið að steypa niður tvo frekar sterkbyggða metersháa stólpa. Þeir stóðu gljáandi upp úr nýrri steypu og voru úr málmi sem bar með sér að vera bæði endingagóður og dýr. Ég hugsaði með mér að þessir málmstólpar hljóti að vera gerðir úr titanium. Eða úr einhverju frá námu í geimnum. Þarna stóðu tveir stólpar án nokkurs sýnilegs tilgangs og steypan sem þeir voru festir í var augljóslega pússuð hvern dag og lökkuð. Steypan varð að minnsta kosti sléttari og meira gljáandi hvern dag sem ég gekk fram hjá á leið minni til skrifstofu.

Ég var orðinn nokkuð forvitinn að sjá hvað mannahendurnar, sem unnu þetta verk á daginn á meðan ég stússaði með mínum mjóu skrifstofufingrum á fínu skrifstofunni minni, ætluðu sér með þessa geimmálmsstólpa. Og lakkað, bónað og pólerað steypuundirlag?

Í gær kom loks skýring á öllum framkvæmdunum. Þegar ég gekk framhjá í gærmorgun hafði verið skrúfaður sá glæsilegasti póstkassi sem ég hef augum litið á súlurnar tvær, kyrfilega steyptar niður í hina gljáfægðu steypu. Póstkassinn sjálfur var stór og augljóslega gífurlega vandaður koparkassi. Handverkið var af bestu gerð og það sást langar leiðir. Ég dáðist að þessari framkvæmd og hugsaði með mér hvað það er gaman þegar svona er vandað til verka. Allt er af bestu gerð og nostrað við handverkið.

En svo kom reiðarslagið. Ég kom gangandi upp götuna í morgun og sá úr fjarska glampa á koparkassann og það mátt jafnvel greina gljáann á steypugrunninum. Ég gekk skrefin áfram og nálgaðist þetta litla mannvirki út við gagnstéttina. Og þá sá ég mér til mikillar undrunar að eigandinn hafði lokið verkinu með því að merkja kassann. 19B stóð skrifað með svörtum tússi beint á fína koparinn. Bókstafirnir voru stórir og skjálfandi og tölustafurinn 9 var ekki sérlega vel heppnaður í fyrstu tilraun og því var krotað ofan í hann til að gera hann greinilegri.

IMG_1518

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.