Kosturinn við að búa í kjallara

Ég hef ekkert unnið í dag og hef ekki einu sinni farið upp á skrifstofu, ég valdi frekar að ganga út á akrana, niður í fjöru og út á bátahöfnina. Nú eru kýrnar komnar út á tún, ég staldraði því dágóða stund við girðingu  fyrir  utan bæinn og virti fyrir mér þennan rólynda flokk kúa, sem horfði á mig úr fjarska. Grasið sem þær ganga á virðist bæði ferskt og safaríkt. Ég ímynda mér að kýrnar séu ánægðar með verustað sinn. Kannski hefði ég átt að verða kúabóndi. Nei, það er vond hugmynd.

Með því að fara ekki í vinnu í dag er ég eiginlega að núllstilla mig. Ekki að ég hafi tekið meðvitaða ákvörðun, ég  ákvað bara að mæta ekki til vinnu. Það er ekkert væl í mér, ég er sallarólegur. Mér hefur ekki tekist að ná góðum takti undanfarna daga í vinnunni, margt hefur leitað á hugann svo ég hef verið fálmandi, byrjað á einu og byrjað á því næsta án þess að klára það fyrra. Byrja svo jafnvel á því þriðja án þess hvorki að hafa lokið við það fyrsta né hið annað. Í dag mætti ég sem sagt ekki, fletti þess í stað pollrólegur bókum, skoðaði kýr, virti fyrir mér ölduganginn við baðbrýnnar hér í fjörunni sem skaga út á Eyrasundið.

IMG_1542
Kýr og safaríkt gras.

Seinnipartinn í dag hef ég sem sagt handleikið bækur, flett í þeim í leit að inspiration og hlustað á músik. Mig langar að detta niður í eitthvað sem kveikir í mér. Ég las heilmikið í 1005 tímaritinu, alls konar efni en fann ekki það sem ég leitaði að. Ég las ljóðabækur Szymborsku en fann heldur ekki þar það sem ég leitaði að. Ég skoðaði gamalt safn úrvalsljóða, ekkert þar, kíkti í smásagnasafn Kjell Askildsens, það hefur alltaf verið mér uppörvun að lesa Kjeld. Þar rakst ég að minnsta kosti á þessa setningu þó að inspiration léti á sér standa: „Kosturinn við að búa í kjallara er sá að þú gengur upp tröppur þegar þú ert óþreyttur og niður tröppur þegar þú kemur þreyttur heim. Það er sennilega eini kosturinn.“ Ég brosti. Ég hef einu sinni á ævinni búið í kjallara. Ég bjó í nokkra mánuði í kjallaraíbúð þegar ég átti heima í Þýskalandi, en hún var ekki mjög niðurgrafinn svo tröppurnar upp voru ekki nema í mesta lagi 5 þrep þótt tröppurnar niður væru 6.

Í kvöld fer ég enn á ný inn til Kaupmannahafnar, engin lát á kvöldskemmtunum þessa dagana, kannski fullmikið af því góða. Fertugsafmæli Christians verður haldið í Orangeriet í Kongens Have, og það verður örugglega fín veisla. Ég hefði þó eiginlega frekar kosið að vera heima í kvöld, en maður mætir til að gleðja afmælisbarnið.

 

 

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.